Tók „sjálfu“ frá altarinu með kirkjugestum
• Fangaði gleðina sem ríkti í aðventustund í Dalskirkju í Önundarfirði
Nútíminn er alls staðar, líka í formföstu messuhaldi. Í aðventustund í Dalskirkju að Kirkjubóli í Valþjófsdal, daginn fyrir Þorláksmessu, greip presturinn sr. Fjölnir Ásbjörnsson tækifærið og smellti einni sjálfsmynd af sér og kirkjugestum frá altarinu. Það er óhætt að segja að myndin hafi heppnast vel eins og sést hér að ofan.
„Það var skemmtilegt hvernig myndin kom út og fangaði stemninguna þarna, gleðina,“ segir sr. Fjölnir um myndina. Hann bar þó ekki símann innanklæða við altarið heldur var vinur hans, Björgvin Sveinsson, að mynda í kirkjunni, áður en athöfnin byrjaði, og notaði Fjölnir tækifærið, bað um að fá símann hjá honum og smellti einni af áður en hann byrjaði. „Þetta var bara svona augnabliks hugdetta, og í fyrsta skipti sem ég geri þetta,“ segir sr. Fjölnir. „Það tóku allir kirkjugestir vel í myndatökuna og var hún í stíl við gleðina sem ríkti í kirkjunni. Ég held að það sé lykilatriði að reyna að halda í léttleikann og vera glaður og gera eitthvað skemmtilegt.“
Fámenn sókn
Aðeins fimm sóknarbörn eru í Kirkjubólssókn, allt heimilisfólk á Kirkjubóli. Aðventustundin er það eina sem er fast í Dalskirkju á ári hverju. „Við höfum alltaf verið með aðventustund í kirkjunni rétt hjá jólum. Það hafa verið vinsælar stundir og vel sóttar og svo bjóða þau á Kirkjubóli í messukaffi á eftir heima hjá sér,“ segir Sr. Fjölnir.
Hann hefur verið prestur í Holtsprestakalli síðan 2008 en prestakallinu tilheyra fjórar sóknir; Flateyrarsókn, Holtssókn, Kirkjubólssókn og Staðarsókn.
Sr. Fjölnir segir messuhaldið hafa gengið ágætlega þessi jólin þótt veðrið hafi aðeins sett strik í reikninginn. „Ég gat haldið áætlun og messað á Suðureyri og Flateyri á aðfangadagskvöld en varð að fella niður messu í Holti í Önundarfirði á jóladag því það var ófært. Messusókn er yfirleitt mjög góð yfir hátíðirnar en veður dró eitthvað úr aðsókn núna. En næsta messa verður í Staðarkirkju í Súgandafirði á gamlársdag.“
Morgunblaðið miðvikudaginn 28. desember 2016.