Þúsundasta sprengingin
Í viku 10 voru grafnir 90,9 m í göngunum Dýrafjarðarmeginn. Á föstudeginum var sprengd færa númer 1000 og eru þá ótaldar allar sprengingarnar sem fóru í að grafa hliðarrýmin í útskotunum. Grafnir voru 4.876,8 m í þessum 1000 sprengingum. Lengd ganganna í Dýrafirði var í lok vikunnar 1.239,2 m sem er 75,4 % af leggnum sem er eftir og er búið að grafa í heildina 92,4 % af göngunum. Eru núna 404,2 m að gegnumbroti.
Grafið var í basalti og þunnum setlögum ásamt því að grafið var í gegnum 7 m þykkan berggang. Allt efni úr göngunum var keyrt beint í vegfyllingu.
Í göngunum Arnarfjarðarmeginn var haldið áfram með gröft og jöfnun á lagnaskurðum, fleygun fyrir brunnum og undirbúið fyrir lagnavinnu.
Í vegagerð Dýrafjarðarmegin var unnið við grjótröðun eftir veginum sem liggur meðfram sjó að þveruninni yfir Dýrafjörð. Haldið var áfram með fyllingar í vestur frá munnanum og fyllingar hækkaðar með efni úr göngunum. Einnig voru sett niður tvö ræsi.
Á meðfylgjandi myndum má sjá útsýnið sem mun blasa við þegar komið er úr göngunum í Dýrafirði, þegar verið er að hlaða sprengiefni í göngunum, snjóhreinsun af vegstæðinu og vegstæðið við þverunina yfir Dýrafjörð.