Þú átt nú öll atkvæðin hér, elskan mín!
Nokkrar léttar sagnir af Ásgeiri forseta 1.
Það var á þeim árum sem Kristján Ingvaldur Benediktsson bjó á Hrafnseyri, um 1940. Þá var hann fenginn til að flytja Ásgeir Ásgeirsson, sem Vestur-Ísfirðingar fylgdu í gegnum þykkt og þunnt, í kosningaferðalag á bát yfir í Mosdal. Þegar þeir koma að Horni hitta þeir Guðmund bónda í mógröfum, ásamt fleira fólki. Ásgeir heilsaði Guðmundi fyrstum manna og sagði hann þá að bragði við þingmanninn:
Þú átt nú öll atkvæðin hér, elskan mín.
Sagt er að Ásgeir hafi orðið mjög glaður við þessi viðbrögð bóndans.
Við sömu kosningar fór Kristján Ingvaldur aftur á bát yfir í Mosdal. Að þessu sinni var frambjóðandinn Jón Eyþórsson með í för. Þingmannsefnið og bóndinn hittast og viðhafði bóndinn sama formálann við Jón og Ásgeir áður:
Þú átt nú öll atkvæðin hér, elskan mín.
Þá sneri flutningsmaðurinn sér að Guðmundi og segir:
Þú sagðir nú það sama við Ásgeir hérna um daginn.
Já, elskan mín. Maður segir nú ýmislegt við þessa djöfla þegar þeir eru að flakka hér um.
(Sögn Sigurjóns G. Jónassonar, Lokinhömrum).
Hallgrímur Sveinsson.