Þrjár lágu hjá þeim Miðbæjarfeðgum
Í gær og fyrradag náðu þeir Miðbæjarfeðgar, Guðberg Kristjan Gunnarsson og Hákon Kristjánsson, þremur hlaupatófum. Eitt dýrið var í svokölluðum Sneiðingum, annað út við harðfiskhjalla og það þriðja út á Sveinseyri. Myndin sýnir þá með tvær af tófunum. Hvorutveggja steggir. Sá hvíti er með dulinn erfðavísi fyrir svörtu, eins og sérfræðingarnir segja. Sá mórauði er í hvítum sokkum eins og kemur fyrir hjá sauðkindinni. Sjaldgæft litarafbrigði hjá melrökkum segir Kristján. Bæði dýrin voru vel haldin, sá mórauði mun eldri. Þeir feðgar hafa nú náð sex tófum frá því síðast var talið, sem mun hafa verið í kringum áramótin.
Það vita allir að tófan á sinn þegnrétt á landi hér. Hún kom hingað löngu á undan mannskepnunni. En það þýðir ekki að við eigum að láta hana vaxa okkur yfir höfuð. Hún má ekki taka völdin í náttúru Vestfjarða. Og minkurinn. Við nefnum hann nú ekki ógrátandi hér fyrir vestan.
° Í dag leggja sveitarstjórnir og önnur yfirvöld mikla áherslu á ferðamenn. Það er ágætt. En svo virðist líka sem mikil áhersla sé lögð á að hafa sem mest af mink og ref þeim til yndisauka þar sem leið þeirra liggur um. Annars væri öðruvísi staðið að málum en gert er. Það þarf greinilega að taka vinnubrögð gömlu hreppsnefndanna upp aftur í sambandi við óargadýrin.