Þráinn Bertelsson heiðraður fyrir framlag sitt til gamanmynda
Gamanmyndahátíð Flateyrar fór fram á helginni á Flateyri. Hátíðin fór að mestu fram í gömlum bræðslutanki sem stendur á Flateyri en á meðal leikstjóra mynda í ár voru Jón Gnarr, Grímur Hákunarson, Benedikt Erlendsson og fleiri. Tæplega 700 manns mættu á viðburði á vegum hátíðarinnar.
Þráinn Bertelsson var heiðraður fyrir framlag sitt til gamanmynda á Íslandi. Veitti hann verðlaununum viðtöku og í framhaldi af því var sérstök heiðurssýning á gamanmyndinni Nýtt líf.
23 íslenskar gamanmyndir voru sýndar á hátíðinni í ár. Áhorfendur völdu fyndnustu mynd hátíðarinnar með kosningu og var það gamanmyndin Frægð á Flateyri eftir Jón Hjört Emilsson sem lenti í fyrsta sæti.
“Frægð á Flateyri, eftir Jón Hjört Emilsson var tekin upp á fyrstu Gamanmyndahátíðinni, árið 2016, og er leikin heimildarmynd (mockumentary) sem fjallar um bróðir Jóns, Emil Alfreð Emilsson, sem er að fara á sína fyrstu kvikmyndahátíð, öruggur um að vinna hana, en margt fer út um þúfur í ferðinni,” segir í tilkynningu frá hátíðinni.
Gamanmyndin C-vítamín eftir Guðnýju Rós Þórhallsdóttir lenti í öðru sæti og hlaut titilinn Næstum því fyndnasta gamanmyndin.