A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
15.11.2016 - 10:39 | Vestfirska forlagið,Fréttablaðið,bb.is

Þótti vænt um svarta féð

Þeir félagarnir Kári G. Schram og Þorbjörn Pétursson á frumsýningu myndarinnar Svarta gengið í Bíói Paradís.
Þeir félagarnir Kári G. Schram og Þorbjörn Pétursson á frumsýningu myndarinnar Svarta gengið í Bíói Paradís.
« 1 af 2 »

Myndin Svarta gengið sem sýnd er í Bíói Paradís segir frá Þorbirni Péturssyni bónda í Arnarfirði og virðingunni sem hann sýnir eftirlætiskindunum með veglegum grafreit.

 

Svarta gengið segir einstaka sögu Þorbjörns Péturssonar fjárbónda og einsetumanns á Ósi í Arnarfirði. Í kjölfar veikinda og slits þurfti hann að bregða búi og var tilneyddur til að fella allt sitt fé. Honum féll það þungt. Meðal þess var hópur svartra kinda sem hann hafði náð sterku tilfinningalegu sambandi við og kallaði Svarta gengið.“ Þetta segir Kári G. Schram, kvikmyndagerðarmaður og höfundur heimildarmyndarinnar Svarta gengið sem sýnd er í Bíói Paradís.

„Svarta féð hans Þorbjörns var komið út af tinnusvartri gimbur sem var svo smá í fyrstu að hún náði ekki upp í spena móður sinnar og varð heimalningur. Þegar henni var slátrað var hún grafin heima og svo stækkaði heimagrafreiturinn þegar fella þurfti fleiri úr svarta genginu,“ lýsir Kári og heldur áfram: „Hjá Þorbirni er allt í röð og reglu. Fljótlega fékk hann þá hugmynd að heiðra minningu þessara svörtu, mállausu vina sinna með minnisvarða. Hann lét gera mön með legsteinum, grafskriftum, nöfnum og ljóðum. Ekki nóg með það heldur vill hann fá að hvíla þarna sjálfur líka þegar þar að kemur og er að sækja um leyfi til þess til yfirvalda – en það er snúið.“

Bærinn Ós stendur gegnt Hrafnseyri en vegurinn þangað lokast í fyrstu snjóum og er oft lokaður í fjóra til sex mánuði á ári, eftir tíðarfarinu, að sögn Kára. „Þorbjörn hefur lifað einangraður yfir veturinn en í sveitinni þekkja allir Bjössa og öllum þykir vænt um hann. Heilsunnar vegna getur hann þó ekki hafst þar við lengur yfir harðasta veturinn svo hann festi kaup á íbúð á Þingeyri. En húsin þrengdu að honum og hann hafði ekki óhefta fjarðarsýn, eins og hann hafði alist upp við. Í myndinni kynnumst við þessum hliðum öllum,“ segir Kári sem undanfarin ár hefur verið með annan fótinn í Arnarfirði, vegna uppbyggingarinnar í Selárdal, stofnunar Skrímslasetursins á Bíldudal og síðast töku myndarinnar Svarta gengið.

„Það tók tíma að kynnast Þorbirni en við erum orðnir miklir vinir og erum eins og gömul hjón þegar ég er hjá honum. Hann hefur svo fallegt hjartalag og væntumþykja hans til kindanna snertir mann eins og Hrútar sinnum tveir. Þetta er bara sanna sagan.“

Myndin, sem er tæpur klukkutími að lengd, verður sýnd í dag, á morgun og miðvikudag í Bíó Paradís. 

 

Í viðtali við Kristján Má Unnarsson í Íslandi í dag árið 2010 segir frá því að Þorbjörn hafi rifið og brennt fjárhúsin og hlöðuna og keypt sér íbúð á Þingeyri. Þá var hann búinn að gera grafreit fyrir Svarta gengið sitt sem taldi um 80 kindur og sagði: „Þarna liggja kindurnar sem mér þótti vænst um. Ég vildi bara liggja hér líka.“ 

 

 

 

 

 

 

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31