A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
19.01.2017 - 11:14 | Vestfirska forlagið,Björn Ingi Bjarnason

Þorri hefst 20. janúar 2017 - Bóndadagur

Frá Dýrafirði á þorra.
Frá Dýrafirði á þorra.
« 1 af 3 »

Mánuðurinn þorri hefst í 13. viku vetrar, nú 19. til 25. janúar, en 9. til 15. janúar í gamla stíl fyrir 1700. Mánaðarnafnið er kunnugt frá 12. öld en uppruni þess er óviss.

Þorri er persónugerður sem vetrarvættur í sögnum frá miðöldum. Þar er einnig getið um þorrablót, en þeim ekki lýst. Vetraröldungurinn Þorri er algengt yrkisefni á 17. – 19. öld og um fagnað eða sérstaka siðvenju við upphaf þorra eru heimildir frá öndverðri 18. öld. Líklegt er að slíkar venjur séu allmiklu eldri.

Upphaflega virðist húsfreyja hafa boðið þorra velkomin enda er ljóst að fyrsti dagur þorra hefur verið tileinkaður húsbóndanum. Er hvorttveggja til að honum hafi verið veitt sérstaklega í mat og að hann hafi þá átt að gera vel við sitt fólk. Bóndadagsheitið er þó ekki kunnugt fyrr en í þjóðsögum Jóns Árnasonar frá miðbiki 19. aldar. Þar er einnig minnst á hlaup bónda kringum bæ sinn, en óljóst er hversu almennur slíkur siður hefur verið og hver er uppruni hans. Vera kann að þar sé um að ræða leifar af eldra þorrafagnaði.

Á síðarihluta 19. aldar fóru mennta- og embættismenn að tíðka samkomur sem þeir kölluðu “Þorrablót” að fornum hætti, matar- og drykkjarveislur þar sem sungin voru ný og gömul kvæði og drukkin minni Þorra og heiðinna goða. Einkum var Þór tengdur þorranum. Þessar veislur lögðust af eftir aldamótin 1900 í kaupstöðum en þá hafði þorrablótssiðurinn borist í sveitirnar, fyrst á Austurlandi og í Eyjafirði, og hélt þar áfram.

Um miðja 20. öld hófu átthagasamtök á höfuðborgarsvæðinu síðan þorrablótin aftur til vegs og virðingar í þéttbýli, og buðu þá “íslenskan” mat sem nú var orðinn sjaldséður í kaupstöðum.

Veitingamaður í Naustinu í Reykjavík (Halldór Gröndal sem á ættir til Hvilftar í Önundarfirði) hafði síðan sérstakan þorramat á boðstólum frá þorranum 1958. 

Síðan hafa þorrablót ýmissa samtaka með íslenskan mat verið fastur liður í skemmtanalífi um allt land.

Um 1980 hófust blómagjafir eiginkvenna til eiginmanna undir áhrifum frá konudegi.

 

Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson. 


« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31