A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
10.09.2016 - 07:26 | Vestfirska forlagið,Fréttatíminn

Þorpið er að þurrkast út

Af þeim ellefu börnum sem hófu skólagöngu sína á Þingeyri haustið 1986 er Erna Höskuldsdóttir sú eina sem býr í þorpinu í dag.
Af þeim ellefu börnum sem hófu skólagöngu sína á Þingeyri haustið 1986 er Erna Höskuldsdóttir sú eina sem býr í þorpinu í dag.
« 1 af 8 »

Fréttatíminn laugardagurinn 10. september 2016.

 

Sjá bls. 22 - 24

http://www.frettatiminn.is/tolublod/10-september-2016/

 

Sjómennska, hárgreiðsla, kennsla, rafvirkjun eða flugumferðarstjórn. Leiðir barnanna sem hófu skólagöngu sína fyrir þrjátíu árum á Þingeyri hafa verið ólíkar. Erna Höskuldsdóttir er eitt þessara barna og þrátt fyrir að hafa heitið móður sinni því að búa aldrei á Þingeyri er hún sú eina úr gamla bekknum sem býr þar enn. Eins og bekkjarsystir hennar, Hulda, sem flutti sextán ára suður til að læra hársnyrtingu, sagði, þá dreymir mann eitt en svo gerist bara eitthvað allt annað.

„Mitt markmið var að komast sem lengst í burtu frá Þingeyri. Þegar ég svo loks fór að heiman hélt mamma að ég kæmi aldrei til baka,“ segir Erna.

Hún flutti sextán ára að heiman því hana langaði alls ekki til að vinna við fiskverkun eða sjómennsku. Hana dreymdi um að verða íþróttakennari og fór því í Menntaskólann á Laugarvatni. Dvölin var ekki löng því ári síðar varð Erna ófrísk að tvíburum og flutti aftur heim. Þessi mikla stefnubreyting varð á endanum til þess að Erna fann sína hillu. Hún fór að kenna við grunnskólann og leið svo vel í starfinu að eftir stúdentsprófið á Ísafirði fór hún beint í Kennaraháskólann. Í dag er hún skólastjóri Grunnskólans á Þingeyri, hefur eignast þrjú börn til viðbótar með barnsföður sinum og vilja þau hvergi annarsstaðar vera en á Þingeyri.

„Þú ert að tala við stelpu sem á pabba, bróður og frændur sem allir eru á sjó og mann sem er vélstjóri og vinnur í fiskeldinu,“ segir Erna. „Ég veit svo sem ekkert hvað þeir eru að fiska karlarnir en ég veit hvaða áhrif allar þessar breytingar hafa haft á bæinn. Þegar kvótinn var á Þingeyri voru karlarnir búsettir hér og stunduðu sjómennsku héðan en núna elta þeir skipin sín. Pabbi siglir frá Ísafirði og móðurbræður mínir hafa elt skipin sín til Grindavíkur og bróðir minn er fluttur til Hafnarfjarðar með fjölskylduna sína.“

„Mamma vinnur í frystihúsinu og er búin að gera það síðan hún var tólf ára. Allar þessar miklu breytingar, þegar það koma nýir rekstraraðilar í frystihúsið og þegar byggðakvótanum er dreift á nýja staði, er mamma búin að upplifa beint í æð. Og ég held að það fari alls ekki vel með fólk. Hún hefur oft misst vinnuna en fengið hana svo aftur þegar hlutunum er reddað í einhvern tíma og auðvitað tekur þetta á fólk. Allt í einu kemur einhver og skellir í lás og fólk á bara að redda sér. Svo þegar næst er tekið úr lás á þetta sama fólk bara að vera þakklátt. Þetta hafði ekkert endilega mikil áhrif á okkur krakkana, ég var alltaf „ligeglad“, en ég fann samt hvað þau voru þreytt.“

Skemmtilegast á pósthúsinu

Þegar hópurinn á ljósmyndinni hóf sína skólagöngu fyrir þrjátíu árum var bærinn annar. Það var ekki bara fleira fólk heldur var líka þjónusta á borð við pósthús, banka, kaupfélag, sjoppu og bensínstöð. Í dag er ein bensínstöð. Þessar þjónustumiðstöðvar gegndu auðvitað miklu stærra hlutverki en þeim var ætlað. Þetta voru samkomustaðir þar sem hægt var að rekast óvænt á nágrannann og lenda á spjalli um allt og ekkert. Eitt af því skemmtilegasta sem Birna Pálsdóttir gerði var að fara á pósthúsið því þar var oftast eitthvað um að vera og þar áttu allir sitt hólf sem ótrúlega spennandi var að kíkja í. „Við krakkarnir vorum úti að leika okkur allan daginn mest allt árið. Ég man ekki eftir því að okkur hafi nokkur tímann leiðst. Þegar við svo urðum unglingar héldum við áfram að ganga fram og til baka um bæinn svo við hljótum að hafa verið í ótrúlega góðu formi. Annars var ég líka algjör dundari og fannst gott að vera bara ein heima með allt barbídótið mitt.“ Birnu fannst líka gaman þegar hárgreiðslukonurnar frá Ísafirði komu til að klippa litla kolla og snyrta hárið á frúnum í bænum. Hún heillaðist svo af þessum farandverkakonum að hún ákvað snemma að flytja í burtu og verða sjálf hárgreiðslukona einn daginn.

Fengu sjokk á jólahlaðborðinu

„Ég fór suður að læra hárgreiðslu þegar ég var sextán ára og hef búið fyrir sunnan síðan,“ segir Birna. Mamma vann í kaupfélaginu og pabbi var á sjónum og hann er ennþá á sjónum þó hann sé orðinn rúmlega sjötugur. Hann er með pínulítinn kvóta í dag og fer í stuttar ferðir. Bróðir minn, sem býr enn á Þingeyri og er pípari, fer oftast með honum út. Dóttir bróður míns er ein af þessum tveimur sem voru að byrja í skólanum núna, þetta er náttúrulega alveg ótrúleg breyting. Mamma og pabbi fengu pínu sjokk í jólahlaðborðinu fyrir sextíu ára og eldri fyrir fjórum árum síðan því það var meira en hálfur bærinn mættur. Þetta er dálítið sorglegt.“

Hulda Hrönn Friðbertsdóttir flutti líka suður til að læra hárgreiðslu en ólíkt Birnu þá ætlaði hún að snúa aftur vestur. „Flestir í kringum mig stefndu á að vinna í einhverju tengdu fiski en ég ákvað mjög meðvitað að finna mér nám sem gæti komið mér frá því að festast í fiski. Planið var ekkert að vera alltaf fyrir sunnan en ég fann mér karl um verslunarmannahelgina á Akureyri og við höfum verið saman hér í Reykjavík síðan,“ segir Hulda og hlær. Líkt og bekkjarfélagarnir hugsar Hulda vestur með söknuði og reyna þau fjölskyldan að fara þangað eins oft og þau geta, enda búa foreldrar hennar þar enn. „Það vantar alltaf klippara á Þingeyri og ég fæ alveg að finna fyrir því þegar ég fer vestur. En kallinn minn er kerfisfræðingur og það er engin spennandi vinna fyrir hann þar. Draumurinn var alltaf að flytja aftur heim og opna stofu en svona breytast plönin.“

Ráðamenn skilja þetta ekki

Elfar Rafn Sigþórsson fór með pabba sínum á sjóinn sem strákur og vann nokkur sumur á sjónum en fann fljótlega að sjómennskan hentaði sér ekki. Hann fór í Menntaskólann á Akureyri og er flugumferðarstjóri í dag. Elfar fer oft til Þingeyrar þar sem foreldrar hans búa enn. Aðspurður segist hann ekki búast við því að flytja nokkurntíma aftur vestur. „Það var mjög gott að alast upp á Þingeyri og í dag sækja krakkarnir mínir mikið í að fara þangað. Þeir tala stundum um vilja eiga heima þar en ég á ekki von á því að það gerist. Það eru engin atvinnutækifæri þarna, einhver fiskvinnsla og svo skólakerfið en það er allt og sumt. Sennilega væri meira líf ef það væri meiri útgerð en það er ekkert víst að Íslendingar myndu sækja í það. Þegar kvótinn fór fluttu margar stórar fjölskyldur til Grindavíkur en hinir sem vildu ekki vinna í þessum iðnaði sótti sér menntun annað og hafa ekki komið aftur. Þetta er auðvitað sorglegt. Þeir sem ráða skilja ekki hvernig þetta er, þekkja ekki hvernig er að vera úr svona plássi.“

Ólöf María Guðrúnardóttir ólst upp hjá móður sinni, ömmu og afa. Hún kynntist föður sínum aldrei og segir það hafa haft mikil áhrif á sig. „Það vantaði alltaf eitthvað. Það var gott að búa hjá ömmu og afa en ég fór í algjöra uppreisn þegar ég var þrettán ára. Ég missti allan áhuga á skólanum, fór að skrópa og krökkunum í bekknum fannst ég frekar skrítin svo ég missti allt samband við þau. Mér leið aldrei sérstaklega vel í skólanum.“

Ólöf var send á barna-og unglingageðdeild í Reykjavík þegar hún var þrettán ára en bjó svo á unglingaheimili í Sólheimum þar til hún var sextán ára. „Þetta var fínt heimili, mér leið vel þar og róaðist mikið. Svo fór ég vestur að vinna í fiski þar til ég var átján ára en elti svo sætan strák til Noregs. Þar sem ég var orðin átján ára gat mamma ekki stoppað mig,“ segir hún og hlær. Ólöf María býr í Svíþjóð með manni og börnunum sínum þremur. Mig langar oft heim til Þingeyrar en það er ekki hægt þegar ástin heldur manni föstum. Maðurinn minn á barn hér og getur ekki farið. Amma og afi eru á Þingeyri og ég hugsa oft til þeirra.“

Tvær stúlkur úr bekknum hættu í þriðja bekk og hafa ekkert búið á Þingeyri síðan. Foreldrar Þóreyjar Sifjar Brink eru að vestan en áttu Þóreyju í Reykjavík þar sem móðir hennar stundaði nám við Menntaskólann í Hamrahlíð. Hún segir þau alltaf hafa unnið eins og skepnur í frystihúsinu á Þingeyri á sumrin til að eiga fyrir vetrinum fyrir sunnan. Þau reyndu svo að búa á Þingeyri í nokkur ár en fóru svo alflutt til Reykjavíkur þegar Þórey var átta ára. Þórey, sem vinnur sem verkefnastjóri hjá 365, á enn ættingja fyrir vestan og reynir að fara þangað á hverju sumri.

Faðir Tinnu Jensdóttur var skipstjóri og segir Tinna þau hafa flutt á milli þorpa á um það bil þriggja ára fresti. Eftir Þingeyri fluttu þau til Ísafjarðar þaðan sem þau fluttu til Hvammstanga en þegar Tinna var tólf ára settust þau að í Kópavogi. Aðspurð segir hún það ekki hafa verið erfitt að flytja svona mikið. „Það er kannski núna fyrst sem maður sér það að maður á ekki sömu rætur og aðrir, upp á vinkonur og þannig að gera,“ segir Tinna sem hefur ekkert samband við Þingeyri í dag þó hún eigi þar frændfólk. „Ég hef eiginlega ekki nennt að fara þangað eftir að afi dó. Ég á mjög góðar minningar þaðan úr æsku en ég myndi ekki vilja vera þarna í dag með börnin mín, það eru svo fáir þarna í dag og mest allt útlendingar.“

Leið á að sakna mannsins

Björnfríður Ólafía Magnúsdóttir er sú eina úr bekknum, fyrir utan Ernu, sem hefur búið á Þingeyri á sínum fullorðinsárum. Hún fór suður eftir gagnfræðaskólann en kom aftur tæpu ári síðar. „Aðstæður á mínu heimili voru þannig að ég þurfti að vinna fyrir mér og á þessum tíma var mikill uppgangur á Þingeyri,“ segir Björnfríður sem vann um tíma í söluskálanum, frystihúsinu og við þrif í félagsheimilinu. „Það var svo mikla vinnu að fá á þessum tíma að Pólverjarnir fóru að streyma í bæinn og ég varð ástfangin af einum þeirra þegar ég var sautján ára,“ segir Bjarnfríður sem giftist ástinni sinni ári síðar og saman eiga þau þrjú börn í dag.


Svo fór auðvitað allt á hausinn og við fluttum hingað á Eskifjörð árið 2008, þegar maðurinn minn fékk vinnu á báti sem siglir héðan. Hann hafði verið að sigla frá Grindavík í millitíðinni en ég var komin með alveg nóg af því að hafa svona langt á milli okkar svo ég ákvað að prófa að flytja líka hingað, og ég er enn að prófa,“ segir Björnfríður og hlær. Hún reynir að fara eins oft og hún getur að heimsækja ættingjana á Þingeyri. „Við erum hér því maðurinn minn er með vinnu hér en ég væri enga stund að pakka niður ef vinnan væri annarsstaðar,“ segir Björnfríður sem er samt ekki viss um að hún gæti flutt aftur til Þingeyrar. „Það eru margir Þingeyringar fluttir til Grindavíkur og þar býr líka mikið af Pólverjum, þar á meðal tengdapabbi. Ég hugsa að við færum miklu frekar þangað ef við flyttum eitthvert. Það er svo sorglegt að koma á Þingeyri því annaðhvert hús er orðin sumarbústaður. Þú kemur í bæinn í myrkri og það er ekki rafmagn nema í öðru hverju húsi. Þetta er rosalega sorglegt.“

Hennar gamla bekkjarsystir, Erla Ebba Gunnarsdóttir, tekur í sama streng. Bærinn hafi breyst það mikið að hann sé allt annar í dag. Erla Ebba er fjárbóndi í Miðfirði, gift með fjögur börn, en reynir að fara vestur að minnsta kosti einu sinni á ári. „Amma mín og mikið af fjölskyldunni býr enn á Þingeyri og mér þykir óskaplega vænt um þennan fallegasta fjörð landsins. Ég myndi ekki vilja búa þarna í dag þar sem ég er búin að koma mér vel fyrir hér í Miðfirði en ég fæ samt alltaf annað slagið heimþrá því ég sakna þess að geta ekki hitt fólkið mitt eins oft og ég vildi,“ segir Erla Ebba.

Flutti með útgerðinni til Grindavíkur

Faðir Rúriks Jónssonar átti útgerð á Þingeyri en flutti hana til Grindavíkur árið 1993. Rúrik var þá þrettán ára gamall og var alls ekki sáttur við flutningana. „Maður vildi auðvitað ekkert yfirgefa félagana. Það var erfitt í fyrstu að kynnast nýju fólki en það gekk svo bara prýðilega enda gott fólk í Grindavík,“ segir Rúrik sem hefur verið á sjónum frá því hann var sextán ára. Hann segir strákinn á myndinni þó ekki hafa dreymt um að verða sjómaður heldur fótboltastjörnu. Rúrik, sem býr í Keflavík en fer í dagróðra frá Njarðvík, segist helst af öllu vilja búa í Grindavík en konan sé úr Keflavík og hún fái að ráða. „Ég fer annað slagið vestur og það er alltaf gaman þó þetta sé ekki sama þorpið. Maður er orðin svo vanur því að vera í bæ þar sem er nóg um að vera en það eru mestmegnis Pólverjar og gamalmenni þarna núna. Það er engin þjónusta og engar íþróttir. Ég held að maður gæti samt alveg fengið vinnu þar ef maður vildi. Ég held að það geti allir fengið vinnu sem nenna að vinna. Og ef það fæst ekki vinna verður maður bara að búa hana til sjálfur.“


Stefán Eggert Jónsson langaði, líkt og gamla bekkjarbróður sinn, að fara sextán ára á sjóinn en það varð ekkert úr því þar sem mamma hans þvertók fyrir það. „Pabbi var með þokkalega stóran bát og það snerist allt lífið um fiskiríið. Eldri bræður mínir fóru út með honum og bróðir minn var með honum úti þegar þeir lentu í sjávarháska árið 1994. Þá var pabbi skipstjóri á Mána og þeir voru á línuveiðum fyrir utan Vestfirði þegar þeir fengu á sig brot og báturinn sökk á stuttum tíma. Þeir komust allir þrír í björgunarbát en svo kól pabbi á meðan þeir biðu eftir björgun. Hann dó í fanginu á bróður mínum.“

Stefán viðurkennir að hann hafi þurft að fullorðnast snemma en segir það líklegast hafa gert sig sterkari fyrir vikið. Og þrátt fyrir allt hafi sig langað á sjóinn. „Það voru aðallega þessar góðu tekjur sem toguðu. Mig langaði bara í flottan bíl en mamma barðist fyrir því að ég kláraði skólann. Ég er henni þakklátur í dag,“ segir Stefán sem flutti suður til að læra rafiðn og fékk vinnu sem rafeindavirki hjá Símanum stuttu eftir útskrift og datt því aldrei í hug að fara aftur vestur. „Ég hugsa að við færum miklu frekar austur þaðan sem konan mín er því þar er fleira ungt fólk með börn. Það er miklu meira um að vera þar. Kvótakerfið lagði Þingeyri í rúst og það er í raun ástæðan fyrir því að ekkert af okkur systkinunum sex býr þar í dag.“

Ljón eða lús

„Auðvitað væri allt annað að búa hér ef kvótinn væri hér enn, segir Erna. Þá væri fjölskyldan enn saman og atvinnutækifærin fleiri fyrir næstu kynslóð. Einu sinni vorum við hálaunasvæði sem dró að sér fólk en nú erum við á láglaunasvæði og þó við vildum fara þá fengjum við ekkert fyrir húsin. Ef okkur langar til að gera eitthvað þá getum við það ekki því við fáum ekki lán í bankanum þar sem við búum á Þingeyri.“

Þrátt fyrir allar breytingarnar, fólksfækkunina og óöryggið segist Erna hvergi annarsstaðar vilja vera. Smæð samfélagsins hafi sína kosti, hún segir notalegt að búa á Þingeyri og grínast með að þrátt fyrir allt þá sé hægt að kaupa hluti eins og engifer og sætar kartöflur á bensínstöðinni. Lokun bankans hafi verið síðasta erfiða höggið. Bankinn er bara opinn í eina klukkustund á viku og því eigi eldra fólkið erfitt með að venjast.

„Við viljum vera hér en auðvitað viljum við að eitthvað breytist. Mér verður oft hugsað til lagsins hans Mugisons, Hér vil ég vera, hér á ég heima. Þorpið er að þurrkast út en ég vil samt vera hér, allri fjölskyldunni líður vel hér, en þessi óvissa vofir alltaf yfir samfélaginu. Í dag eru 29 börn í skólanum og ég veit ekki hvort litli þriggja ára strákurinn minn á eftir að fá tækifæri til að vera hér í skóla. Það vantar svo einhverja stefnu um þessi mál, svo við gætum vitað með vissu hvort það borgi sig fyrir okkur að ala upp börn hér og setja alla okkar hýru í að byggja hús sem verður svo verðlaust. Við myndum vilja vita hvort það verði hér byggð eða ekki. Það væri miklu betra fyrir alla að vita af eða á.“

Mér finnst bekkjarsystkini mín, sem fóru í burtu, mjög kjörkuð. Kannski er ég bara algjör lús að vilja búa hér og vilja hafa alla fjölskylduna hjá mér. Kannski er ég lúsin sem þori ekki í burtu og þau ljónin sem þorðu. Mér finnst þau rosalega huguð að geta farið og byrjað upp á nýtt. Ég hef oft velt þessu fyrir mér en mér finnst stuðningurinn sem ég fæ frá fjölskyldunni minni hér bara of dýrmætur. Ef ég færi þá þyrfti ég að rífa mig upp með rótum og það skiptir svo miklu máli hvar ég set þær niður aftur. Á sá staður eftir að vera betri?“

 

Fréttatíminn laugardagurinn 10. september 2016.

 

Sjá bls. 22 - 24

http://www.frettatiminn.is/tolublod/10-september-2016/




« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31