Þórólfur Magnússon, fyrrv. flugstjóri – 80 ára
Með 25 þúsund flugtíma í rúma hálfa öld
Þórólfur fæddist í Fagradal í Dalasýslu 24. mars 1935 en ólst upp í Miklagarði í Saurbæjarhreppi, í Hrappsey á Breiðafirði og á Innra-Ósi í Strandasýslu. Hann flutti til Reykjavíkur 1954, lauk gagnfræðaprófi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni 1955, hóf flugnám hjá Flugskólanum Þyt hf. 1956, lauk einliðaflugprófi það ár, einkaflugmannsprófi 1959 og atvinnuflugmannsprófi 1963.
Starfsferill
Þórólfur stofnaði og starfrækti, ásamt Helga Jónssyni, Leiguflug Þórólfs Magnússonar og Helga Jónssonar frá 1963, stofnaði síðan, ásamt fleirum, Flugfélagið Vængi 1969 og var framkvæmdastjóri þess fyrstu árin en þeir starfræktu það til 1978. Hann var flugstjóri hjá Arnarflugi 1978-90 og starfaði hjá Íslandsflugi frá 1990 til starfsloka árið 2000, þá með um 25.000 flugstundir að baki. Hann stundaði eftir það járnabindingar með járnaflokki vaskra járnabindingamanna Ingvars Sveinbjörnssonar og fleiri fram að hruni.
Árið 2013 stofnaði Þórólfur með syni sínum og vinum flugklúbbinn Vængir EHF og er þar stjórnarformaður.
Þórólfur átti sæti í stjórn FÍA 1978-84, fyrst sem varamaður og síðan meðstjórnandi, sinnti síðar stöðu varamanns stjórnar FÍA frá 1992-99.
Þórólfur hefur sinnt áhugamálum sínum, m.a. skógrækt á Héraði ásamt skóg- og kartöflurækt við sumarafdrep sitt í Grímsnesi síðustu ár. Hann söng 2. tenór í Karlakór Reykjavíkur frá 1988 -2000 og er nú í eldri deild Karlakórs Reykjavíkur.
Fjölskylda
Eiginkona Þórólfs er Þorbjörg Júlíusdóttir, f. 24.3. 1944, fulltrúi og húsfreyja. Foreldrar hennar voru Júlíus Jónasson, f. 26.11. 1900, d. 21.9. 1968. vegaverkstjóri og bóndi í Vífílsnesi í Hróarstungu í Norður-Múlasýslu og síðar í Reykjavík, og Jónína Ásmundsdóttir, f. 15.1. 1910, d. 7.12. 1988, húsfreyja í Vífilsnesi og síðar í Reykjavík.
Börn Þórólfs og Þorbjargar eru Júlíus Björn Þórólfsson, f. 3.1.1969, flugstjóri, flugvirki og sérfræðingur hjá Samgöngustofu, búsettur í Kópavogi en kona hans er Rebekka Rós Þorsteinsdóttir, f. 6.6. 1973, svæfingahjúkrunarfræðingur og eru barnabörnin Þórólfur Máni Júlíusson, f. 18.8. 2006 og stjúpdóttir, Sól Rós Hlynsdóttir, f. 23.6. 1996; Jónína Helga Þórólfsdóttir, f. 8.1. 1971, framhaldsskólakennari í Reykjavík en maður hennar er Orri Hallgrímsson, f. 6.11. 1976, flugmaður, og eru barnabörnin Loftur Snær Orrason, f. 22.9. 2007, og Lena Líf Orradóttir f. 30.5. 2009; Aðalheiður Dóra Þórólfsdóttir, f. 1.10. 1978, iðnhönnuður í Kópavogi en maður hennar er Ásgeir Freyr Ásgeirsson, f. 30.6. 1978, viðskiptafræðingur og er dóttursonurinn Ásgeir Óli Ásgeirsson, f. 8.5. 2012.
Systkini Þórólfs: Theódór Magnússon, f. 30.1. 1929, d. 26.7. 2013, sjómaður á Drangsnesi; Gróa Magnúsdóttir, f. 30.6. 1930, húsfreyja í Reykjavík; Loftur Magnússon, f. 15.7. 1931, augnlæknir, búsettur á Akureyri; Guðjón Magnússon, f. 24.11. 1932, smiður og bóndi í Hólmavík; Þuríður Magnúsdóttir, f. 17.2. 1934, d. 16.1. 1968, húsfreyja á Torfastöðum í Jökulsárhlíð; Ólafur Magnússon, f. 10.12. 1936, d. 11.7. 2013, sendibílstjóri og sjómaður, var búsettur í Kópavogi; Ingibjörg Magnea Magnúsdóttir, f. 30.3. 1938, húsfreyja í Kópavogi; Jón Anton Magnússon, f. 19.5. 1939, skipstjóri á Drangsnesi; Einar Magnússon, f. 19.5. 1939, vélstjóri í Hveragerði; Anna Valgerður Magnúsdóttir, f. 12.6. 1946, húsfreyja í Hafnarfirði; Ásbjörn Magnússon, f. 29.12. 1948, sjómaður og rekur með konu sinni gisti- og veitingahúsið Malarkaffi á Drangsnesi, og Gíslína Magnúsdóttir, f. 5.8. 1953, afgreiðslukona.
Foreldrar Þórólfs voru Magnús S. Guðjónsson, f. 5.7. 1894, d. 16.4. 1975, bóndi á Innra-Ósi í Strandasýslu, og k.h., Aðalheiður Loftsdóttir, f. 16.5. 1910, d. 25.6. 2002, húsfreyja.
Þórólfur og Þorbjörg bjóða ættingja og vini velkomna í safnaðarsal Háteigskirkju þriðjudaginn 24. mars milli 16:30 og 18:30.
Morgunblaðið þriðjudagurinn 24. mars 2015.