Þormóðsslysið: - Skipbrot á Garðskagaflös
Jakob Ágúst Hjálmarsson ritaði bókina að hvatningu úr hópi þeirra 56 barna sem fólkið lét eftir sig.
Lagt af stað
Það er logndrífa svo ekki sér yfir í Biltuna hinumegin Bíldudalsvogsins. Húsin sem kúra á Búðareyrinni eru snævi þakin og það logar á götulýsingunni í rökkrinu. Það er kominn 16. febrúar en dögun er enn ekki í nánd. Það marrar þungt í snjónum á þessari stuttu leið niður á bryggju. Þar liggur Þormóður við bryggjuhausinn. Það tókst að fá hann inn á Bíldudal og þeir ætla að taka fólk með. Það eru svo margir sem þurfa að komast suður.Forystumenn atvinnulífsins þurfa suður að ræða við eigendur og banka um rekstur liðins árs og horfur hins nýja. Sjómenn þurfa að komast til skipa sinna. Ungt fólk þarf að komast í vinnu, enda uppgrip fyrir sunnan og vantar fólk. Stríðsgróðinn er farinn að segja til sín. Það er svo aldrei að vita hvort Esjan kemur við á leið að norðan; um það fást aldrei nein svör. Ekki kom hún við á norðurleiðinni, enda á hraðferð; ekki komið síðan í nóvember.
Það drífur að fólkið. Skipinu liggur á. Það er með fryst kjöt í lestinni frá Hvammstanga sem þarf að komast í maga hermannanna fyrir sunnan. Þegar lagt er af stað er allt þetta fólk búið að finna sér einhverja holu um borð. Konurnar fá koju. Yngra fólkið situr í matsal og þar sem það finnur pláss.
Það er áfram logn þegar siglt er út Arnarfjörðinn en þegar komið er á Patreksfjörð er farið að kula. Þar eru presturinn í Sauðlauksdal og skipstjórinn á Baldri teknir um borð eftir nokkra bið og þá eru þau orðin 31 um borð. Þetta er of margt fólk til þess að það geti farið vel um það. Þetta skip er ekki neitt farþegaskip. Þetta er línuveiðari og síldarskip; leigt í strandflutninga af Skipaútgerðinni til að bæta upp siglingaleysi vegna stríðsins.
Það er farið að hvessa þegar komið er fyrir Blakk og veður í uppgangi. Þá er um að gera að komast suður áður en hann nær inn á landið og á siglingaleiðina af alvöru. Þormóður er þokkalegt gangskip og getur verið kominn til Reykjavíkur áður en langt verði liðið á næsta dag. Verst með þessar tafir á Patreksfirði. Skipið hefði eiginlega getað verið komið langleiðina suður núna. En það er vont að átta sig á veðrinu þegar engar eru veðurfréttirnar.
Það er orðið ærið hvasst og liðið að kvöldi þegar komið er undir Snæfellsnes og þá álitið skynsamlegast að leita vars þó að kjötið gæti skemmst eitthvað. Alls er óvíst hversu lengi veðrið vari. Akkerum er því varpað undir Ólafsvíkurenni yfir nóttina. Í dagrenning er akkerum létt og haldið aftur af stað.
Þormóður ver sig vel og vindurinn er vonandi enn svo sunnanstæður að það getur orðið skaplegt sjólag þegar komið verður inn á Faxaflóa. Öldurnar ganga yfir skipið við Öndverðarnesið og um borð eru flestir orðnir sjóveikir og bera sig illa. Þetta verður mikill barningur áður en lýkur. Erfitt að skilja hvers vegna skipið beið ekki af sér veðrið í Ólafsvík eða fór inn á Grundarfjörð.
Í Faxaflóa
Farið er að óttast um skipið og reyna að hafa samband við það um kl. 16 en tekst ekki fyrr en kl. 19. Þá segir skipstjórinn þá slóa í Faxabugt og geti ekki sagt til um það hvenær skipið nái til Reykjavíkur. Þeir hafa þá verið á hægri siglingu allan daginn, haldið upp í veðrið og þokast suður í Faxaflóann. Engin tök hafa verið á því að snúa undan og inn til Reykjavíkur. Úti í rúmsjó var þeim nokkuð óhætt og í dagsbirtunni mátti víkja sér undan ólögum. Nógu margir hafa verið í brúnni til að fylgjast með þeim. Gísli skipstjóri hefur haft ráðuneyti af Þórði kollega sínum og Bárði stýrimanni. Lárus og Jóhann vélstjórar hafa lagt sig fram um að vélin gengi og hafa dælt sjó úr skipinu eftir þörfum sem áreiðanlega hafa verið allnokkrar. En sem sagt; allt var í lagi og eftir ástæðum kl. 19, ella hefði þess sjálfsagt verið getið.
Tveir farþeganna sendu líka skeyti til síns fólks og sögðu að öllum liði vel, og þeir höfðu helst hugmynd um að þeirra væri ekki að vænta fyrr en morguninn eftir. Þetta hljóta að hafa verið orð þeim til hughreystingar sem biðu þeirra, því engum hefur liðið vel í slíkum veltingi og stórviðri sem skipið barðist í. Margir hafa verið sjóveikir og fengið að liggja í kojum hásetanna eftir því sem þær entust til en aðrir hafa setið á bekkjunum framan við þær og í „messanum“ sem var undir bátadekkinu. Svefn hefur ekki verið næðissamur í tvær nætur og fólkið því allt orðið slæpt. Gunnlaugur matsveinn hefur hins vegar gefið nóg að borða eftir því sem fólkið hefur haft lyst á, en ólíklegt að það hafi verið mikið þennan síðasta dag eins og skipið veltist.
Undir þessum kringumstæðum hefur óttinn fyrst og fremst verið undirliggjandi, ekki efst í huga, heldur slæm líðanin og þreytan. Fólkið er svo margt um borð að þar er allstaðar þéttsetið. Loftið er þungt vegna innilokunar og ælufýla, þótt eflaust hafi verið reynt að þrífa uppköstin. Allir hafa þurft að skorða sig og halda sér í þungum veltingnum, þegar skipið lyftist upp á öldufaldana til þess svo að hlunkast niður í öldudalinn, látlaust upp og niður allan daginn.
Þegar komið er fram á kvöld og myrkur skollið á breytast aðstæður allar mikið til hins verra. Mennirnir í brúnni sjá hvorki siglingamerki né brotsjóina. Þeir gera sér líklega grein fyrir því að þeir eru komnir í grennd við Garðskagaröstina.
Lætin í sjónum hljóta að hafa veitt vísbendingar um það. Brot lenda á Þormóði og leki eykst. Dælurnar hafa ekki undan lengur. Það sem lausast er ofan þilja er farið fyrir borð. Hvergi glittir hins vegar í Garðskagavita í særokinu. Hann er of lágur og ljóslítill til þess.
Morgunblaðið 2. desember 2017.