09.03.2009 - 01:11 | HS
Þingeyri er nú miðstöð bridgeíþróttarinnar á Vestfjörðum
Á þessu blessaða ári hefur þó borið nokkuð nýrra við. Haldið þið ekki að Ísfirðingar, Súðvíkingar og fleiri norðanmenn hafi komið til Þingeyrar einu sinni í viku til að spila bridge! Og það ekki bara tveir eða þrír, heldur allt upp í 15 til 20 manns. Þetta er ótrúlegt en samt satt. Nánast ekkert hefur verið spilað á Ísafirði síðastliðin tvö ár og er það bæði synd og skömm því þeir norðanmenn eru miklir keppnismenn í bridge og gefa ekkert eftir fyrr en í fulla hnefana, enda hafa þeir oft náð gífurlegum árangri, jafnvel á landsmælikvarða! Eftir þessu verður að álykta sem svo að miðstöð bridgeíþróttarinnar á Vestfjörðum sé nú á Þingeyri í Dýrafirði (Eftir því sem hinum bestu mönnum er kunnugt).
Einnig má álykta, að bridgemenn þar nyrðra telji að það sé jafn langt frá Ísafirði til Þingeyrar eins og frá Þingeyri til Ísafjarðar, eða þannig!
Aðal bækistöð Gosa á Þingeyri er í höfuðstöðvum Hópferðabíla Friðfinns og Sigríðar, en það fyrirtæki er þekkt fyrir að leggja sig í líma við að þjóna íbúum hér á svæðinu og ber Gosa gamla á höndum sér.