Þingeyrarfrændur á þingi
Kolbeinn Óttarsson Proppé kemur inn sem nýr þingmaður fyrir Vinstri græna. Hann verður ekki sá eini úr sinni fjölskyldu á þingi því þar er fyrir fyrir Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, en þeir eru bræðrasynir.
Þótt Kolbeinn komi nýr inn á þing hefur hann áður verið í framboði fyrir Vinstri græna. Í kosningunum árið 2003 leiddi hann lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi en flokkurinn náði ekki manni á þing í kjördæminu í þeim kosningum. Flokkurinn hlaut 8,8% atkvæða og fékk fimm þingmenn kjörna. Kolbeinn var í öðru sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík suður fyrir kosningarnar nú.
Óttar Proppé hefur setið á þingi fyrir Bjarta framtíð frá árinu 2013 sem þingmaður Reykjavíkur. Í kosningunum nú er hann hins vegar í Suðvesturkjördæmi, Kraganum. Áður hafði hann verið borgarfulltrúi fyrir Besta flokkinn frá 2010. Kolbeinn hefur einnig komið að borgarmálum en hann tók sæti á lista Reykjavíkurlistans árið 2002 og var varaborgarfulltrúi.
Óttarr er fjórum árum eldri en Kolbeinn.
Í viðtali við Fréttablaðið í janúar 2003 segir Kolbeinn Óttarr frænda sinn og Kristin „stuð“ Styrkársson Proppé „fara fremsta í flokki þeirra sem haldið hafa Proppé-nafninu á lofti“.