Þetta gerðist 25. nóvember 1865 - Nóbel fær einkaleyfi á DÍNAMÍTI
Svíinn Alfred Nobel var allt í senn efnafræðingur, verkfræðingur, uppfinningamaður og vopnaframleiðandi og fékk einkaleyfi á sprengiefninu dínamíti á þessum degi fyrir rúmum 150 árum.
Það sem Nobel uppgötvaði var ný leið sem gerði sprengiefnið sem hann hafði fundið upp hættuminna og hentugra í meðferð og hann kallaði það dínamít. Hann kynnti það til sögunnar í fyrsta sinn árið 1867 í Surrey í Englandi. Alfred Nobel var verulega auðugur maður og í síðustu útgáfunni af erfðaskrá hans voru ákvæði um að stór hluti auðæva hans færu í stofnun sérstakra verðlauna.
Frá árinu 1901 hafa Nóbelsverðlaunin verið veitt þeim sem skara farm úr í eðlisfræði, efnafræði, læknisfræði, bókmenntum og þeim sem hafa stuðlað að friði í heiminum. Verðlaunin eru að öllu jöfnu afhent í Stokkhólmi við hátíðlega athöfn, nema friðarverðlaunin sem hafa frá upphafi verið afhent í Ósló. Þar er einnig Friðarsafn en það var vinkona Nobels, friðarsinninn Bertha von Suttner, sem átti frumkvæðið að þeim.
Fréttablaðið.