A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
05.08.2016 - 07:09 | Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason,Vestfirska forlagið

Þetta gerðist - 5. ágúst 1675 lést Brynjólfur Sveinsson biskup

Skálholtsdámkirkja Brynjólfs Sveinssonar.
Skálholtsdámkirkja Brynjólfs Sveinssonar.
Brynjólfur Sveinsson biskup lést þann 5. ágúst 1675, nær sjötugur.

Hann hefur verið talinn einna merkastur Skálholtsbiskupa í lútherskum sið.

Brynjólfur Sveinsson var fæddur í Holti í Önundarfirði 14. september árið 1605, á krossmessu á hausti.
Foreldrar hans voru þau hjónin Sveinn Símonarson, prestur þar, og Ragnheiður Pálsdóttir.

Fyrstu þrjú æviár sín var Brynjólfur að Hóli í Önundarfirði, en það mun hafa tíðkast að fyrirfólk kæmi börnum sínum þannig í fóstur um skeið. Síðan elst hann upp hjá foreldrum sínum og var þar haldið fast að lærdómi í kristnum fræðum. Er sagt, að þegar hann var á 12. aldursári hafi drengurinn verið búinn að lesa gjörvalla Heilaga ritningu yfir fimm sinnum, og það á latínu.

Að þessum undirbúningi loknum var honum komið til náms í Skálholti. Þetta var árið 1617. Hann brautskráðist þaðan 18 ára gamall, árið 1623. Á skólaárunum var Brynjólfur heima vestra um sumur og gegndi öllum þeim störfum er til féllu, gekk að slætti og fór í útróðra. Þó var honum stöðugt haldið að bóklestri jafnframt.

Árið 1624 sigldi Brynjólfur til háskólanáms í Danmörku, kom heim næsta sumar, vegna drepsóttar sem geisaði ytra, en fór aftur út um haustið. Að 5 ára námi loknu, árið 1629, lét hinn nýbakaði baccalaureus í guðfræði, heimspeki og málfræði í haf og kom upp til Íslands og las grísku í foreldrahúsum í tvö ár.

En hann fer utan á ný til háskólanáms, 1631. Fór þar mikið orð af vitsmunum hans og þekkingu. Árið 1632 gerðist hann yfirkennari (konrektor) við dómskólann í Hróarskeldu, og er í því starfi til vors 1638. Í millitíðinni, eða 28. nóvember 1633, hlaut Brynjólfur meistaragráðu í heimspeki við Kaupmannahafnarháskóla.

Þá kemur hann aftur til að líta föðurland sitt augum og gera ýmsar ráðstafanir vegna andláts móður sinnar, áður en haldið skal utan til frekari dvalar á meginlandi Evrópu, þegar Gísli Oddsson Skálholtsbiskup veikist og andast, og kennimenn velja Brynjólf sem eftirmann hans. Tregur þáði hann embættið, eftir að hafa reynt að komast undan því, bendandi á að margir aðrir væru sér langtum hæfari til starfans, hlaut vígslu í Frúarkirkjunni í Kaupmannahöfn 15. maí árið 1639, og átti eftir að gegna því til ársins 1674, við góðan orðstír, þótti röggsamur kirkjustjórnandi, framfarasinnaður í veraldlegum efnum og allra manna lærðastur, og bjó auk þess yfir víðsýni og umburðarlyndi. Sem dæmi að nefna tók hann mildilega á galdramálum og orti Maríukvæði í kaþólskum stíl. Þá var hann áhugasamur jafnt um náttúruvísindi og hugvísindi, safnaði fornritum og vildi gefa þau út á prenti.

Hinn ungi biskup, 34 ára gamall, fékk Skálholtsstað í hrörlegu ásigkomulagi, en uppbyggði stórmannlega, lét rífa gömlu dómkirkjuna og reisa aðra minni. Sú er jafnan kölluð eftir honum.

Mælt er að Brynjólfur hafi tekið að þýða Nýja testamentið „úr grísku á íslenzku, fylgjandi orðameiningu höfuðtextans,“ eins og segir í Biskupasögum Jóns Halldórssonar. „Bað biskupinn herra Þorlák að láta það prenta, þá fullgert væri. Fékk afsvar fyrir þá grein, því horfa mundi til ásteiníngar framar en uppbyggíngar hjá einföldum almúga, ef mismunur væri á útleggíngum þess.“ Hafði Brynjólfur einungis lokið við að þýða Matteusarguðspjall, er hér var komið sögu. Ekkert hefur varðveist af því, að talið er. En þetta mun vera í fyrsta sinn, að Íslendingur þýðir rit úr Nýja testamentinu beint úr frummálinu.

Í verki sínu um Brynjólf (1973), í flokknum Menn í öndvegi, segir Þórhallur Guttormsson sagnfræðingur m.a.:

Í dagfari öllu var Brynjólfur biskup án alls drambs og yfirlætis eða fordildar í mat og klæðnaði. Barst hann svo lítið á, að þjónustufólk og nemendur veittu honum átölur í leyndum. Því svaraði hann svo, að fyrst guð hefði látið sig fæðast í því landi, þar sem klæði væru gerð af sauðaull, en ekki í landi, þar sem stunduð væri silki- eða bómullarrækt, þá bæri sér að semja sig að háttum síns lands og klæðast ullarfötum. „Vanitas quam minimum optimum“ var orðtak hans. Því minna sem væri af hégómanum, því betra.

Brynjólfur kvæntist Margréti Halldórsdóttur lögmanns árið 1640. Þau eignuðust sjö börn, en einungis tvö þeirra komust á legg. Ragnheiði misstu þau árið 1663, einungis 22 ára gamla. Við útför hennar var frumfluttur jarðarfararsálmurinn „Allt eins og blómstrið eina“, sem Hallgrímur Pétursson áður gaf henni. Sonurinn Halldór lést árið 1666, hálfþrítugur að aldri. Margrét andaðist 1670 og Þórður, sonur Ragnheiðar, 1673, á tólfta aldursári.

Afkomendurnir lifðu því engir.

Brynjólfur, þessi helsti öndvegismaður Íslands á 17. öld, vildi einn allra Skálholtsbiskupa ekki njóta legs innan veggja kirkju, heldur valdi sér hvílustað austan til í garðinum, hjá sínum nánustu, og bað um að áklappaður steinn yrði ekki lagður á gröf sína. Það er í stíl við orðin hér að framan, ívitnuð.

Hann andaðist 5. ágúst árið 1675. Í áðurnefndri bók Þórhalls er framhaldinu lýst svo:

Tveim dögum áður en jarðarför Brynjólfs fór fram, var hann lagður í kistu sína og Nýja testamentið, Davíðssálmar og Fjórir guðspjallamenn Jóns Arasonar látnir hjá honum. Hafði hann mælt svo fyrir sjálfur. Skorti biskup nú engan búnað til að hefja að nýju fyrra starf, er kæmi yfir landamærin miklu […]

Heimild: flateyri.is

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31