A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
09.08.2017 - 13:40 | Björn Ingi Bjarnason,Hallgrímur Sveinsson,Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

Þetta gekk eiginlega allt furðu vel

Jón Sigurðsson, vélstjóri frá Alviðru í Dýrafirði segir frá.
Jón Sigurðsson, vélstjóri frá Alviðru í Dýrafirði segir frá.

Dýrfirðingurinn Jón Sigurðsson, yfirvélstjóri á norska farskipinu Neptun, var sæmdur heiðursmerki frá Bretlandi fyrir aðkomu sína að flutningi breska hersins frá Dunkirk vorið 1940. Jón starfaði í áratugi á norskum farskipum og vildi lítið um afrekið ræða.

Flutningur breska hersins frá Dunkirk í Frakklandi vorið 1940 er á allra vörum á ný eftir að kvikmynd Christophers Nolans um þennan sögulega viðburð sló í gegn á dögunum. Til að gera langa sögu stutta höfðu þeir alvarlegu hlutir gerst í viðureign Breta og bandamanna þeirra við Þjóðverja að breski sendiherinn, sem umkringdur var við Dunkirk, átti um tvennt að velja; að flýja meginlandið eða láta brytja sig niður. Herinn komst undan, meira en þrjú hundruð þúsund manns, margir hverja illa særðir, og var það talið mikið afrek.

Að því er næst verður komist tók einn Íslendingur þátt í aðgerðinni, Jón Sigurðsson frá Alviðru í Dýrafirði, en hann var yfirvélstjóri á norska farskipinu Neptun sem statt var í Dunkirk. Sæmdu Bretar hann heiðursmerki í kjölfarið.

Jón mun alla tíð hafa verið fámáll um þátt sinn í atburðarásinni en í samtali við tímaritið Fálkann árið 1950 hreyfir hann lítillega við málinu. „Jón Sigurðsson er, að því er ég veit, eini Íslendingurinn, sem hefir verið þátttakandi í brottflutningi breska hersins frá Dunkirk,“ skrifar blaðamaður. „En hann hefir fátt um það að segja, annað en að það hafi verið „gott að komast burt þaðan“.“

„Flugvélarnar sveimuðu yfir, eins og varpfugl þegar skip pípir nálægt vestfirsku bjargi,“ sagði Jón við Fálkann, „og við urðum fegnir þegar við komum það langt til hafs, að bresku herskipin gátu farið að hjálpa okkur. Þetta gekk eiginlega allt furðu vel – miklu betur en við hefði mátt búast, því að meðan við lágum í Dunkirk vorum við eiginlega varnarlitlir.“

Blaðamaður Fálkans hitti Jón á heimili Guðna Benediktssonar fulltrúa í Ósló en það mun hafa verið eins konar miðstöð Íslendinga í Noregi á þessum árum.

Jón hafði starfað á norskum farskipum í fjóra áratugi þegar hér var komið sögu og var við það að setjast í helgan stein. „En nú er ég orðinn sextugur og á þess vegna að hætta. Mér er víst ekki trúandi fyrir vél lengur,“ sagði Jón og brosti. „En ég sætti mig vel við að hætta. Og þá er það eitt af því fyrsta sem ég geri, að fara heim og hringsóla um landið allt, gangandi, bílandi og siglandi – ég hlakka öll ósköpin til þess.“

Fyrra stríð truflaði áætlanir

Jón hélt utan árið 1910 og hafði ekki komið til Íslands síðan. „Já, í þá daga höfðu Vestfirðingar talsvert saman við Noreg að sælda í sambandi við hvalveiðarnar. Og það varð úr að ég slæddist til Noregs, og fór á vélstjóraskóla í Haugasundi. Árið 1914 hafði ég lokið við að búa mig undir lífsstarfið og fór að sigla. En þá þurfti fyrri heimsstyrjöldin að byrja rétt á eftir og trufla allar áætlanir um að skipin kæmust leiðar sinnar.“ Jón sigldi með öðrum orðum gegnum tvær heimsstyrjaldir. Í tvígang var skipið „skotið undan honum“ og í annað skiptið hraktist hann á ellefta sólarhring í björgunarbátnum. Varla hafa það verið sældardagar, gerir blaðamaður Fálkans skóna, því þetta var í nóvember í norðanverðu Atlantshafi.


Ekki vildi Jón sjálfur gera mikið úr því volki en viðurkenndi þó að gott hefði verið að komast á þurrt land eftir þann túr.

Heldur vildi vélstjórinn tala um annan atburð, sem varð við Ameríkuströnd í síðari heimsstyrjöldinni. Þá voru þeir með skipið fullt af sprengiefni og öðrum óþverra, þar á meðal voru gassprengjur á þilfarinu. Farmurinn þótti svo hættulegur að skipið fékk ekki að sigla í „konvoy“ og hafði því ekki samflot neinna skipa. Eina nóttina tekur Jón eftir því, er hann kemur á þilfarið, að farið er að rjúka úr einni sprengjunni á þilfarinu. Háseti einn nærstaddur vildi ekki aðhafast neitt fyrr en hann hefði talað við skipstjóra eða stýrimann, en það fannst Jóni tímatöf og kom sprengjunni þegar fyrir borð, því að líklega hefði hvorki skipstjóri né stýrimaður orðið til við- tals ef sprengjan hefði legið þarna mínútu lengur. Þó að hún gæti ekki sökkt skipi ein og sér, þá hefði hún kveikt í farminum, og þá hefði skipið sundrast í smáagnir.

Fyrir þetta snarræði sitt var Jón sæmdur heiðursmerki af Bandaríkjastjórn. Hann hlaut sumsé bæði viðurkenningu frá hendi Winstons Churchills og Franklins D. Roosevelts um dagana. Þá hengdu norsk stjórnvöld í tvígang á hann heið- ursmerki.

Úthöfin voru að vonum öruggari að stríði loknu en Jón hinn víðförli minnti þó á að hættusvæðin væru enn þá til árið 1950. „Helvítis tundurduflin eru eins og launsátirnar voru í gamla daga. Maður á sér einskis ills von.“

Tók í höndina á Roosevelt

Bandaríkjamenn gerðu sér fulla grein fyrir því á stríðs- árunum hverja þýðingu siglingar Norðmanna höfðu fyrir framvindu styrjaldarinnar. Af þeim sökum var ýmsum úr norska flotanum boðið í opinbera heimsókn til Washington, þeirra á meðal Jóni Sigurðssyni frá Alviðru, að því er fram kemur í Fálkanum. Ártals er ekki getið. Franklin D. Roosevelt forseti efndi til móttöku fyrir hópinn og mun hafa heilsað hverjum og einum eins og um kunningja væri að ræða.

Skelfing bjánalega spurt

„Skelfing spyr maðurinn bjánalega,“ las blaðamaður Fálkans út úr svip Jóns Sigurðssonar frá Alviðru, þegar hann var inntur eftir því hversu margar sjómílur hann hefði siglt um dagana. Vélstjórinn hafði ekki hugmynd um það en að fengnum frekari upplýsingum lagðist blaðamað- urinn í útreikninga og komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði farið sautján sinnum kringum jörðina á skipinu sem hann sigldi lengst með.

Jón hafði siglt með ströndum Suður-Afríku, komið til Ástralíu, farið um Miðjarðarhaf, Svartahaf og Suez, austur með Asíuströndum, til Ceylon, Java, Malakka, Bangkok, Hong Kong og Sjanghæ og á fleiri Kínahafnir – „en til Japan hefi ég aldrei komið,“ sagði Jón eins og hann væri að játa á sig einhverja skömm. Jón hafði að sjálfsögðu komið á Galapagos-eyjar og hitt þar landa sinn sem var allt í öllu í litlu sjávarþorpi. Ættarnafnið var Thoroddsen en skírnarnafnið mundi hann ekki.

Morgunblaðið sunnudagurinn 6. ágúst 2017.



 

 

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31