A A A
  • 1902 - fæddist Halldór Laxness
  • 1950 - Ólafía Sigurjónsdóttir
  • 1965 - Kristbjörg Bjarnadóttir
  • 1989 - Harpa Sjöfn Friðfinnsdóttir
  • 1990 - Snorri Karl Birgisson
  • 1998 - Magnús Freyr Jónasson
01.07.2015 - 20:53 | Hallgrímur Sveinsson

Það vantar fleiri húmorista á Alþingi!

Alþingishúsið við Austurvöll.
Alþingishúsið við Austurvöll.
« 1 af 3 »

Á Alþingi er eitthvað að. Ekki þarf að fylgjast lengi með störfum samkomunnar til að sjá að þar vantar einhvern neista. Sumir innanbúðarmenn kunna ekki kurteisi og fleira er þar mótdrægt. Á Alþingi vantar til dæmis meiri léttleika í bland við alla alvöruna. Góð var tillagan sem kom fram um daginn: Þingmenn ættu að taka lagið í upphafi þingfunda, Öxar við ána, Litla flugan og svona!

   Húmoristar virðast fjarri góðu gamni. Allt of margir þumbarar. Samkoman virkar á mann eins og Grímur Thomsen sagði: Svipþyrping sækir þing. Engir fylla skörð gömlu húmoristanna sem gerðu garðinn frægan: Ólafs Thors, Stefáns Jónssonar, Jónasar Árnasonar, Davíðs Oddssonar og Matthíasar Bjarnasonar, svo fáir séu nefndir.

            Það vantar fleiri húmorista á þing!

            Maður var nefndur Björn Pálsson, kenndur við Ytri-Löngumýri í Svínavatnshreppi. Hann sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn 1959-1974. Sá var ekki í vandræðum með hina mannlegu þætti. Fáir fóru í fötin hans þegar um húmorinn var að ræða enda margsinnis kosinn skemmtilegasti maður þingsins. Sú góða kosning er víst löngu aflögð.

          
  Frægt var að þegar Björn Pálsson kom á þing flutti hann jómfrúrræðu sína í einhverju mikils háttar máli, gott ef ekki álnum eins og hann kallaði álverið í Straumsvík. Fór hann svo til Ólafs Thors forsætisráðherra og spurði hvernig honum litist á sig og hvernig ræðan hefði verið.

            „Það er gott að þú ert kominn, núna verð ég ekki lengur talinn vitlausasti maður á þingi“, svaraði Ólafur. Birni líkaði svarið vel enda tók hann sjálfan sig ekki of hátíðlega og mættu fleiri stjórnmálamenn taka það til fyrirmyndar.

 

Hallgrímur Sveinsson.

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30