ÞINGEYRI, FLATEYRI OG SUÐUREYRI LIFNA VIÐ Í HANDTEIKNUÐUM KORTUM
Von er á nýju og uppfærðu Ísafjarðarkorti í ár, líkt og kom út í fyrra og fékk góðar viðtökur. Kortið handteiknar Ómar Smári með ótrúlegri nákvæmni, en það er Eyþór Jóvinsson sem á veg og vanda að útgáfu kortanna. Í ár er einnig verið að handteikna kort af Þingeyri, Flateyri og Suðureyri í sömu gæðum og Ísafjarðarkortið, og þar með fullkomna Ísafjarðarbæ, ef frá er talinn Hnífsdalur.
Fyrsta upplag af kortinu árið 2012 var 18.000 eintök og var þeim dreift frítt á Ísafirði. Það upplag kláraðist á tæplega mánuði og þurfti því að endurprenta kortið, en alls var um 25.000 kortum dreift í fyrra. Áætlað er að nýtt og uppfært kort af Ísafirði komi út í lok mars, eða viku fyrir Aldrei fór ég suður tónlistarhátíðina. Kortin af Þingeyri, Flateyri og Suðureyri verða saman á einu blaði, svipað og Ísafjarðarkortið og er áætla að þau komi út í maí.
Á bakvið hvert svona kort liggur gríðaleg vinna, þá sérstaklega hjá teiknaranum, Ómari Smára, en það er talið í hundruðum klukkustunda sem hann hefur notað í að gera kortin sem glæsilegust. Í fyrstu ljósmyndar hann staðina í bak og fyrir ofan úr nærliggjandi fjöllum, því næst röltir hann um staðinn og myndar í bak og fyrir til að ná hverju smáatriði. Að lokum felst svo mesta vinnan í að handteikna staðina og lita með trélitum.
Sú ákvörðum hefur verið tekin að uppfæra og endurgera kortin á hverju ári, sem gerir kortin að einstakri heimild um byggðarþróun bæjarfélaga á Vestfjörðum. Það verður því gaman að skoða kortin í sögulegu samhengi seinna meir.