A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
27.05.2015 - 06:36 | BIB,Markaðsstofa Vestfjarða

ÞINGEYRI

Þingeyri við Dýrafjörð. Ljósm.: Markaðsstofa Vestfjarða.
Þingeyri við Dýrafjörð. Ljósm.: Markaðsstofa Vestfjarða.

Þingeyri við Dýrafjörð er elsti verslunarstaður Vestfjarða og einn sá elsti á landinu. Bærinn tilheyrir nú hinu sameinaða sveitarfélagi Ísafjarðarbæ.

Líklegt er að Þingeyri hafi verið þingstaður Dýrfirðingagoðorðs til forna. Þar var mikilvæg höfn allt frá þjóðveldistíma og viðkomustaður erlendra kaupmanna. Upp úr miðri 19. öldinni tók að myndast vísir að þéttbýli á Þingeyri. Um það sama leyti voru franskar fiskiskútur tíðir gestir á Dýrafirði og óskuðu Frakkar eftir leyfi til að stofna nýlendu í Haukadal skammt utan Þingeyrar. Því var hafnað en franskir duggarar, amerískir lúðuveiðimenn, norskir hvalfangarar og fleiri ljáðu Dýrfirðinum áfram alþjóðlegan blæ.

Á Þingeyri er æði margt sem gestir geta tekið sér fyrir hendur. Gamla smiðjan, Vélsmiðja G. J. Sigurðssonar & CO, var stofnuð árið 1913 og gengur enn í óbreyttri mynd. Þar hafa ótal skip frá flestum heimshornum fengið varahluti og viðgerðir í gegnum tíðina en smiðjan er í dag rekin sem lifandi safn og er nauðsynlegur viðkomustaður gesta í plássinu. Í Meðaldal skammt fyrir utan bæinn er golfvöllur sem ratað hefur í golfbækur og tímarit víða um heim ekki síst fyrir braut nr. 7 sem þykir einhver sú allra fegursta á Íslandi.

Á Þingeyri er lítil en ákaflega þægileg og fjölskylduvæn sundlaug en utan við hana er tjaldsvæði, strandblakvöllur og víkingasvæði þar sem finna má grill, bekki, borð og stórt svið.

Þingeyri stendur rétt við einn magnaðasta fjallgarð Vestfjarða sem oft er kallaður "Vestfirsku Alparnir". Þar gnæfir Kaldbakur uppúr, 998 m hár, hæsta fjall Vestfjarða. Hann er vinsæll og tiltölulega þægilegur uppgöngu fyrir vana göngugarpa. 

Af mörgum stórbrotnum stöðum í þægilegu akstursfæri frá Þingeyri má nefna fæðingarstað Jóns Sigurðssonar forseta á Hrafnseyri, fossinn Dynjanda, söguslóðir Gísla Súrssonar í Haukadal, elsta skrúðgarð landsins, Skrúð, og ekki síst Kjaransbrautina svokölluðu en það er magnaður jeppaslóði sem Elís Kjaran ruddi upp á sitt einsdæmi á skaganum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.

 

Markaðsstofa Vestfjarða.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31