A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
01.02.2016 - 07:22 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,BIB

Tengdasonur Vestfjarða: - Stórkostlegur Dagur Sigurðsson

Dagur Sigurðsson - tengdasonur Vestfjarða.
Dagur Sigurðsson - tengdasonur Vestfjarða.

• Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans pökkuðu Spánverjum saman og hömpuðu Evrópumeistaratitlinum í Kraká • Magnað afrek hjá Degi

Dagur Sigurðsson er tengdasonur Vestfjarða.

Eiginkona hans er Ingibjörg Pálmadóttir. Móðir hennar er Guðmunda Jóna Helgadóttir frá Hvallátrum og faðir hennar er Pálmi Hlöðversson f.v. skipherra hjá Landhelgisgæslunni.

 

Dagur Sigurðsson fullkomnaði kraftaverk sitt með hið unga lið Þýskalands þegar liðið burstaði Spánverja, 24:17, í úrslitaleiknum á Evrópumótinu í handknattleik í Kraká í Póllandi í gærkvöld. Eftir tap á móti Spánverjum í fyrsta leik mótsins óx Þjóðverjum ásmegin jafnt og þétt og frábært meistaraverk Dags með liðið skilaði því Evrópumeistaratitlinum. Dagur er annar Íslendingurinn sem gerir lið að Evrópumeisturum en Þórir Hergeirsson hefur í þrígang stýrt norska kvennalandsliðinu til sigurs á Evrópumóti.

Spánverjar, sem ætluðu að landa sínum fyrsta Evrópumeistaratitli, áttu engin svör gegn lærisveinum Dags, sem hafði öll ráð spænska liðsins í hendi sér. Þjóðverjarnir tóku leikinn strax í sínar hendur og það var snemma ljóst í hvað stefndi. Það var engu líkara en Dagur hefði tekið Berlínarmúrinn með sér til Póllands. Vörnin var stórkostleg og markvörðurinn Andreas Wolff sýndi stórbrotin tilþrif á milli stanganna. Hann lauk leiknum með 52% markvörslu og að öðrum ólöstuðum var hann maður leiksins. Staðan í hálfleik var 10:6, en aldrei áður í sögu EM hefur lið skorað jafnfá mörk í úrslitaleik. Þar með unnu Þjóðverjar annan Evrópumeistaratitil sinn en þeir unnu hann fyrst árið 2004. Evrópumeistaratitillinn skilar einnig Degi og strákunum hans farseðlinum á Ólympíuleikana í Ríó í ágúst.

Í frábæru liði Þjóðverja var Kai Häfner markahæstur með sjö mörk. Hann var kallaður inn í hópinn eftir að fyrirliðinn Steffen Weinhold heltist úr lestinni vegna meiðsla í milliriðlinum en margir öflugir leikmenn voru fjarri góðu gamni í þýska liðinu sökum meiðsla. Í liði Spánverja var Raúl Entrerrios markahæstur með fimm mörk.

 

Spiluðum hreint frábærlega

„Við erum vitaskuld gríðarlega ánægðir. Frá því við töpuðum fyrir Spánverjum í fyrsta leiknum á mótinu bættum við okkur jafnt og þétt. Við spiluðum hreint frábærlega í þessum úrslitaleik. Vörnin var frábær og markvarslan hjá Wolff stórkostleg. Við erum með frábært lið og það eru leikmennirnir sem eiga heiður skilinn fyrir þá vinnu sem þeir hafa lagt á sig,“ sagði Dagur eftir leikinn en hann tók við þjálfun þýska landsliðsins fyrir 18 mánuðum. Þetta voru fyrstu verðlaun Þjóðverja á stórmóti í níu ár en þeir urðu heimsmeistarar á heimavelli 2007.

„Við áttum bara ekki möguleika á að komast inn í leikinn. Þýska liðið spilaði svo vel og vörnin hjá þeim var hreint út sagt frábær,“ sagði Manolo Cadenas, þjálfari Spánverja.

 

Morgunblaðið mánudagurinn 1. febrúar 2016.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31