Tengdasonur Vestfjarða - Árni Sigfússon stjórnsýslufræðingur – 60 ára - 30. júlí 2016
Uppskriftin að árangri er frekar einföld
Árni Sigfússon fæddist í Goðasteini í Vestmannaeyjum 30. júlí 1956 og bjó með fjölskyldunni í Eyjum til 12 ára aldurs er hún fluttist til Reykjavíkur. Hann lauk stúdentsprófi frá MH 1977, kennaraprófi frá KHÍ 1981 og meistaraprófi í stjórnun og opinberri stjórnsýslu í Bandaríkjunum 1986. Árni stundaði fiskvinnslu, sjómennsku og byggingarvinnu í Vestmannaeyjum flest námsárin, var stundakennari við Vogaskóla 1974-78, blaðamaður á Vísi 1980-81, framkvæmdastjóri fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík 1982-84, aðstoðarmaður við rannsóknir við University of Tennessee 1985-86, deildarstjóri Fjárlaga- og hagsýslustofnunar 1986-88, framkvæmdastjóri Stjórnunarfélags Íslands 1989-99, borgarfulltrúi í Reykjavík 1986-98, borgarstjóri 1994 og leiðtogi sjálfstæðismanna í borgarstjórn 1994-98. Hann var framkvæmdastjóri Tæknivals 1999-2001, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ frá 2002 og bæjarstjóri 2002-2014.
Árni var formaður Heimdallar 1981-83, formaður SUS 1987-89, formaður Félagsmálaráðs Reykjavíkurborgar 1986-90, sat í borgarráði 1990-98, formaður stjórnar sjúkrastofnana 1990-94 og formaður Skólamálaráðs 1991-94. Hann var formaður FÍB frá 1994-2001. Þá var Árni formaður fræðsluráðs Reykjanesbæjar 2002-2006 og formaður Félagsmálaráðs frá 2006-2010, stjórnarformaður Hitaveitu Suðurnesja 2007-2009 og er stjórnarformaður Keilis, miðstöðvar vísinda og fræða.
Búa öllum bestu aðstæður til að þroskast
„Í lífinu hef ég lært að fimm gildi þurfa að fara saman svo við séum farsæl í hverju því sem við tökumst á við. Fyrst er að hafa þekkingu á því sem þú fæst við, í öðru lagi að hafa skýra framtíðarsýn, í þriðja lagi að sýna heilindi í orðum og gjörðum, þá að hafa þor til að framkvæma á óvissutímum og síðast en ekki síst að hafa þrautseigju til að fylgja verkefnunum eftir. Ég hef alltaf verið sannfærður um að hægt sé að brjótast gegn því að lélegar fjárhagslegar og félagslegar aðstæður foreldra hafi áhrif á þroska barna í mótun. Ef það tekst sköpum við jákvæðara samfélag til framtíðar. Ég fékk aðstöðu til að setja þetta á oddinn bæði í Reykjavík og Reykjanesbæ. Þar skipta vinnuaðferðir í leikskóla og á fyrstu árum grunnskóla afar miklu.“Hvað er svo framundan, Árni? „Verkefnið er áfram að virkja það besta í einstaklingum. Bryndís hefur tileinkað stóran hluta af störfum sínum útgáfu mál- og lestrarþjálfunarefnis sem ætlað er að stuðla að þessu. Það hefur nú færst yfir í mörg smáforrit, fyrst á íslensku og síðan á ensku. Þarna eru verkefni sem við vinnum nú saman að um leið og ég hef staðið með frumkvöðlum í uppbyggingu fyrirtækja, veitt ráðgjöf til lítilla og stórra fyrirtækja og tekið þátt í framþróun verkefna í þágu alls almennings eins og rafrænna skilríkja. Það er mjög ánægjulegt að hafa nú frelsi til að nýta þekkingu og áratuga reynslu af stjórnun og samskiptum við opinberar stofnanir og atvinnurekstur með þessum hætti.“
Fjölskylda
Kona Árna er Bryndís Guðmundsdóttir, f. 25. mars 1959, M.A. í talmeinafræði. Hún er dóttir Guðmundar Egilssonar, fyrrverandi forstöðumanns Minjasafns RR, og k.h., Hervarar Guðjónsdóttur frá Hesti í Önundarfirði, fv. starfsmanns á Borgarspítalanum og formanns Félags heyrnarlausra.Börn Árna og Bryndísar eru Aldís Kristín, f. 19.4. 1980, lögmaður og athafnakona í Bretlandi, gift Ralph Firman kappakstursmanni; Védís Hervör, f. 8.7. 1982, tónlistarmaður, mannfræðingur og M.B.A., gift Þórhalli Bergmann, tónlistarmanni og lögmanni; Guðmundur Egill, f. 18.12. 1988, forritari; Sigfús Jóhann, f. 15.8. 1990, nemi í stafrænni myndgerð við SAE í Amsterdam. Barnabörnin eru orðin fjögur, Árni Stefán og Jóhann Vikar Bergmann og Klara Kristín og Arthur Árni Firman.
Systkini Árna eru Þorsteinn Ingi, f. 4.6. 1954, prófessor í eðlisfræði við HÍ, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar; Gylfi, f. 23.2. 1961, forstjóri Eimskips; Margrét, f. 19.7. 1963, innanhússarkitekt og frumkvöðull; Þór, f. 2.11. 1964, framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans; Sif, f. 16.11. 1967, markaðs- og vefstjóri Félagsvísindasviðs HÍ.
Foreldrar Árna: Sigfús J. Johnsen, f. 25.11. 1930, d. 2.11. 2006, kennari og félagsmálastjóri í Garðabæ, og Kristín Sigríður Þorsteinsdóttir, f. 27.5. 1930, fv. bankastarfsmaður.