Tengdasonur Dýrafjarðar Íslandsmeistari í 14. sinn
• Skráður heimsmeistari í símaskránni
Jón Baldursson, bridspilari með meiru, varð í fjórtánda skiptið Íslandsmeistari í sveitakeppni í brids á sunnudaginn var, en Íslandsmótið í brids fór fram frá fimmtudegi í síðustu viku til sunnudags á Selfossi.
Eiginkona Jóns Baldurssonar er Dýrfirðingurinn Elín Bjarnadóttir.
Jón spilar með sveit Lögfræðistofu Íslands, en hana skipa, auk Jóns, Sigurbjörn Haraldsson, Bjarni Einarsson, Aðalsteinn Jörgensen, Steinar Jónsson og Sverrir Ármannsson.
Heimsmeistari 1991
Jón og Aðalsteinn spiluðu báðir í frægustu bridssveit Íslandssögunnar, sem varð heimsmeistari 11. október 1991, í Yokohama í Japan, eftir að hafa lagt Pólverja að velli, 415-376, í æsispennandi úrslitaleik. Hlaut sveitin hina frægu Bermúdaskál að launum.
Í fyrra sló Jón Íslandsmetið með því að verða Íslandsmeistari í brids í sveitakeppni í þrettánda skiptið og hirti þannig metið af Stefáni Guðjohnsen, sem hafði orðið Íslandsmeistari 12 sinnum.
Morgunblaðið sló á þráðinn til Jóns í tilefni af nýjasta sigrinum, en Jón hefur titilinn heimsmeistari í símaskránni.
- Jón, þarftu ekki að fara að breyta titlinum í símaskránni, eða bæta við hann öllu heldur, fjórtánfaldur Íslandsmeistari?!
„Nei, nei. Heimsmeistari er náttúrlega aðaltitillinn og það er ekkert sem þarf að bæta við hann. Sá titill verður ekki toppaður!“
- Fjórtánfaldur Íslandsmeistari. Náðir metinu af Stefáni Guðjohnsen í fyrra, sem er tólffaldur Íslandsmeistari, með því að ná þér í þrettánda tiltilinn. Er þetta ekki bara glimrandi tilfinning?
„Jú, jú, auðvitað er hún það. Það er alltaf gaman að vinna. Sigurbjörn Haraldsson, sem ég spila með í sveit Lögfræðistofu Íslands, er búinn að vinna titilinn ellefu sinnum, þannig að hann fer nú einhvern tíma fram úr mér, því hann er bara 36 ára. En hann fer ekki fram úr mér á meðan hann er með mér í liði!“
Átti ekki séns í Fischer!
- Þú varðst sextugur í fyrra. Hvenær hófstu að spila brids?
„Ég byrjaði í alvöru í brids, þ.e.a.s. keppnisbrids, haustið 1972.
Hafði samt spilað lítillega áður en var mest í skákinni. Svo þegar heimsmeistaramótið í skák var hérna heima 1972, þá sá ég að ég átti engan séns í þennan Fischer, svo ég sneri mér að bridsinu eftir það!“ segir Jón og hlær við.
- Mér er sagt að þú spilir af jafnmiklum eldmóði og krafti og þegar þú byrjaðir að spila keppnisbrids og spilir bara í öllum mótum. Hvað veldur?
„Það hlýtur bara að vera eitthvað í genunum. Þetta er eiginlega þannig að maður getur ekkert slakað á, ef maður hefur á annað borð áhuga á því að vera í toppbaráttunni. Ef maður fer að slaka eitthvað á, þá er þetta bara ekki eins skemmtilegt. Ég hef ennþá óskaplega gaman af þessu og held áfram á meðan mér líður þannig, enda geta menn enst töluvert lengi í bridsinu.“
Morgunblaðið föstudagurinn 1. maí 2015