Telur að Gamla kaupfélagið eigi að fara
Samkvæmt bréfi bæjarstjóra sem tekið var fyrir á bæjarráðsfundi á dögunum hefur hann fengið ítrekaðar fyrirspurnir um húsið. „Staða málsins er sú að undirbúningur að deiluskipulagi stendur yfir. Vinnan er í höndum landslagsarkitekts sem búsettur er á Þingeyri. Halda þarf opinn fund á Þingeyri til að fá fram afstöðu íbúanna og sem flestar hugmyndir. Þ.á.m. hver er besta staðsetningin fyrir Gamla kaupfélagið," segir í bréfi Halldórs. Þar segir líka að hann velti því fyrir sér hvort nauðsynlegt sé að bíða eftir þeirri niðurstöðu. Hann spyr hvort ekki sé hægt að taka afstöðu til kauptilboðanna eða auglýsa húsið að nýju á þeim forsendum að það verðir staðsett í samræmi við endanlega deiliskipulag. „Það er mat undirritaðs að húsið eigi ekki að vera þar sem það er nú vegna nálægðar við salthúsið sem nú hefur verið endurbyggt. Stutt er á milli húsanna þannig að vegna brunahættu geta skapast vandamál en ekki síður vegna þess að Gamla kaupfélagið nýtur sín ekki nógu vel þar sem það er staðsett í dag," segir í bréfi Halldórs. Bæjarráð hefur falið bæjarstjóra að kalla eftir upplýsingum um stöðu deiliskipulagsvinnu á Þingeyri og leggja fyrir næsta fund bæjarráðs.