Telja veglínu um Teigsskóg í trássi við lög
Fjórtán athugasemdir og umsagnir bárust við tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykhólahrepps vegna veglínu um Gufudalssveit, jafnan kennd við Teigsskóg. Lega jarðganga undir Hjallaháls og að kostnaður ráði leiðarvali veglínu um Teigsskóg er meðal athugasemda. Landvernd telur veglínu um Teigsskóg, sem þverar þrjá firði, vera í trássi við lög.
Tvær veglínur í vinnslutillögu
Reykhólahreppur óskaði eftir athugasemdum og umsögnum við tillögu að breytingum á aðalskipulagi sem sveitarfélagið kallar vinnslutillögu. Í henni er gert ráð fyrir tveimur veglínum, leið Þ-H um Teigsskóg sem Vegagerðin leggur til og leið D2, með jarðgöngum, sem er sú leið sem Skipulagsstofnun leggur til í áliti sínu á umhverfisáhrifum vegna minni umhverfisáhrifa.
Athugasemdir við veglínu og kostnaðarrök
Í innsendum athugasemdum og umsögnum eru til dæmis gerðar athugasemdir við veglínu D2, legu hennar um Ódrjúgsháls og undir Hjallaháls um jarðgöng og að þau mætti jafnvel stytta. Þá er er bent á að með því að velja leið Þ-H verði skólaakstur um 26 kílómetrum lengri en ef D2 verður fyrir valinu. Í innsendum athugasemdum er sveitarfélagið bæði hvatt til þess að velja Þ-H leið um Teigsskóg, til að tefja ekki framkvæmdir frekar, sem og það hvatt til að hafna leið Þ-H vegna umhverfisáhrifa.
Gagnrýna að kostnaðarrök ráði leiðarvali
Landvernd er meðal þeirra sem hvetja sveitarfélagið til að velja leið D2 og bendir á að þverun þriggja fjarða samkvæmt leið Þ-H sé í mikilli andstöðu við lög um vernd Breiðafjarðar og náttúruverndarlög. Þar ráði brýn þörf ekki leiðarvali heldur kostnaður. Vegagerðin telur leið D2 er kosta yfir fjórum milljörðum meira en leið Þ-H. Landvernd bendir jafnframt á að veglagning um Teigsskóg sé ekki nauðsynleg og að sú framkvæmd væri einnig í trássi við náttúruverndarlög. Þá telur Landvernd ekki ásættanlegt að opnuð séu ný efnistökusvæði innan svæðis á náttúruminjaskrá, eins og áætlanir gera ráð fyrir. Landvernd bendir á í umsögn sinni að veglínu D2 fylgir sá kostur að meðfram veglagningu væri hægt að leggja jarðstreng í jörð sem og um jarðgöng um Hjallaháls sem myndi bæta raforkuöryggi í sveitarfélaginu og á Vestfjörðum almennt.
Velja eina veglínu fyrir breytingar á aðalskipulagi
Í lokatillögu að skipulagsbreytingum á aðalskipulagi sveitarfélagsins verður einungis ein veglína. Sveitarfélagið vinnur nú úr gögnum, athugasemdum og umsögnum og hefur einnig óskað eftir ítarlegum upplýsingum frá Vegagerðinni. Þá hefur Háskólinn á Akureyri unnið skýrslu fyrir sveitarfélagið þar sem borin eru saman samfélagsleg áhrif veglínanna tveggja á sunnanverða Vestfirði. Sveitarfélagið stefnir að því að ákvörðun um veglínu liggi fyrir í næsta mánuði.