Taktur tímans
Hver bær á sína sögu. Eftir rúmlega hálfa öld er ég staddur hjá rústum æskustöðva minna. Hugur minn leitar aftur í tímann, tímann sem aldrei kemur aftur. Að standa á rústum eyðibæjar hlýtur að vekja upp margar spurningar og hugarástand sem jaðrar við trega. Gleði og sorg hafa alls staðar skipst á. Ég er staddur nákvæmlega á sama stað og áður fyrr. Sjóndeildarhringurinn sá sami og áður. ... Það var hrífandi að koma snemma út á fögrum sumarmorgni og sjá fjöllin speglast í spegilsléttum firðinum, sjá reykinn liðast upp í loftið á bæjunum í kring einum á eftir öðrum. Þá var að koma hreyfing á fólkið. Það var að vakna til starfa.“
Svo skrifaði Sveinn Mósesson í minnisbók sína sumarið 1975 en hann var þá á ferð um bernskuslóðir sínar í Dýrafirði ásamt sonum sínum Reyni og Kristni, og sonarsyni sem jafnframt ritar þessa frásögn.
Bærinn sem var honum athvarf fyrstu æskuárin nefndist Sjónarhóll en hann stóð rétt suður af lystigarðinum Skrúð við Núp. Gamli tíminn réð enn ríkjum þegar Sveinn sleit þar barnskónum á öðrum áratug síðustu aldar. Nýi tíminn var þó tekin að hefja innreið sína með mótorhljóðum og skellum. En Sveinn kynntist gamla bændasamfélaginu af eigin raun þar sem hann gekk til verka með svipuðum hætti og gert hafði verið um aldir. Níu ára gamall var hann sendur að heiman norður yfir Sandsheiði en hann hafði verið ráðinn sem smali sumarlangt á Sæból við Ingjaldssand þar sem fráfærur voru enn við lýði og þurfti að safna ánum saman til mjólkunar dag hvern. Tólf ára fór hann í verið á Fjallaskaga þar sem hann réri á árabát. Og hann fór með foreldrum sínum eftir Lækjarholtinu inn fyrir bæinn Fell til að stinga upp mó rétt upp undir Mýrafelli.
Sveinn var íhugull og ræddi oft um þær miklu samfélagsbreytingar sem hann upplifði á lífsleiðinni. Lífið hafði verið eilíft strit og hann fagnaði mörgum tækninýjungum sem létti lífsbar- áttuna en gamli tíminn var honum þó að mörgu leyti kær. Ætla má að eftirfarandi hugleiðing Sveins hafi átt samhljóm í sinni margra sem einnig tilheyrðu gömlu aldamótakynslóðinni.
„Öll hljóð hafa einhverja þýð- ingu hvort sem þau eru lítil eða mikil, lágvær eða hávær. Flest þjóna þau einhverjum tilgangi til góðs eða ills. Þau gefa svo margt til kynna: sorg og gleði, sársauka og vellíðan, reiði og velvild og margt þar á milli. Mörg ný eru að myndast í sambandi við tæknivæðinguna og önnur að hverfa. T.d. hljóðið í gömlu vatnsmyllunum og kornkvörnunum handsnúnu, þyturinn í ljánum þegar margir voru við grasslátt, hóin þegar smalarnir voru að smala og hóa saman fénu og reka það í ból. Svo þessi gamalkunnu taktföstu hljóð sem heyrst höfðu öldum saman, róðrarhljóðið – áraglammið – þessi taktföstu þungu hljóð sem oft var hlustað eftir þegar von var á einhverjum úr kaupstaðnum eða verinu. Enn hlustar maður á þessi dimmu hljóð með lokuð augu: hlunkum, dunkum sem minna á löngu liðna tíð, þegar menn börðust oft upp á líf og dauða að komast í land á þessum litlu fleytum og höfðu aðeins seglin og handaflið til umráða.“
Frá landnámi hafði tíminn silast áfram allt fram á 20. öld. Flestir máttu eiga von á að ganga svipaða ævibraut og foreldrarnir. Með tæknibyltingu nútímans hefur samfélagið komist á fleygiferð og við vitum fátt um hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Kyrrstaðan hefur verið rofin en þó má finna augnablik þar sem eilífðin virð- ist söm við sig en enginn kemst upp með að dvelja þar öllum stundum. Í fríum getum við lagt argaþrasandi raftækin frá okkur, skondrað út í villta náttúru, lagst í laut og hlustað á lækinn hjala. En nútímalífið gerir okkur kröfuhörð á frekari gæði og öll viljum við búa við öryggi og þægindi. Þrautin er að finna jafnvægi milli þess gamla og hins nýja því áleiðis viljum við komast en það má ekki vera of dýru verði keypt.
Eftir því sem ég kemst næst var Sjónarhóll aðeins í ábúð í um þrjá áratugi. Engin jörð fylgdi bænum sem var sjómannsheimili eða þurrabúð eins og kallað var. Góð útsýn var frá bænum út fjörðinn, yfir nærliggjandi sveitir og inn Núpsdalinn. En þarna gat einnig verið vindasamt og var bærinn stundum af léttúð kallaður Vindhóll. Dags daglega létu menn nægja að segja Hóll og má af nafngiftunum sjá að fátt er einhlítt í henni veröld.
Sveinn átti margar góðar minningar frá æskuslóðum sínum. Hann gleymdi aldrei gömlum leikfélaga frá Mýrum sem var hundurinn Laxi en milli þeirra var sterkt samband og má segja að seppi hafi farið að heiman til að geta verið sem mest samvistum með drengnum á Sjónarhóli. Segir nokkuð frá því í síð- asta bindi ritraðarinnar Frá Bjartöngum að Djúpi þar sem ég geri nokkuð rækilega grein fyrir Sveini Mósessyni og fjölskyldu hans. Ég læt Svein um að slá botn í þetta greinarkorn og hverfum við nú um hundrað ár aftur í tímann.
„Þarna lék ég mér við Laxa, sem var traustasti leikfélagi minn, á svelluðum tjörnunum og veltumst við um í sköflunum. Smásilung veiddi ég í dýjunum með hrífuskaft fyrir veiðistöng. Ég horfði upp í hlíðina þar sem ég renndi mér á skíðum, stundum í tungsljósi og hálfdimmu. Það var eitthvað dulúðugt að horfa yfir landslagið í mánaskini og þjóta niður hlíðina, niður á holtin. Þegar árshátíðarnar voru haldnar að Núpi þá komu ungu mennirnir á skíðum innan úr sveitinni og fóru á snjóbrú yfir Núpsána, þá var enginn vegur nema troðningarnir eftir Lækjarholtunum. Þá hlustaði ég eftir marrinu í skíðunum. Þá var hlustað eftir öllum hljóðum. Það var svo sjaldan að nokkuð rifi kyrrðina.“
Leifur Reynisson
sagnfræðingur
Blaðið Vestfirðir.