A A A
09.09.2015 - 07:27 | Morgunblaðið,BIB

Taka þátt í gleði og sorg íbúanna

Hjónin Sigurgeir Már Jensson læknir og Helga Þorbergsdóttir frá Bolungarvík, hjúkrunarfræðingur og sjúkraflutningamaður, hafa starfað saman í Vík í 30 ár.
Hjónin Sigurgeir Már Jensson læknir og Helga Þorbergsdóttir frá Bolungarvík, hjúkrunarfræðingur og sjúkraflutningamaður, hafa starfað saman í Vík í 30 ár.
« 1 af 2 »

• 30 ára starfsafmæli samhentra hjóna í Vík

Sami læknirinn og hjúkrunarfræðingurinn hafa staðið vaktina á heilsugæslunni í Vík í Mýrdal nánast allan sólarhringinn síðustu 30 ár. Það sem meira er; hjúkrunarfræðingurinn Helga Þorbergsdóttir og læknirinn Sigurgeir Már Jensson eru hjón.

Hinn 1. september síðastliðinn voru 30 ár liðin frá því þau keyrðu að norðan og tóku við starfinu í Vík, sem þau hafa sinnt óslitið síðan. Af því tilefni þakkaði sveitarfélagið þeim fyrir vel unnin störf á 30 ára starfsafmælinu. Íbúar Víkur þurfa þó ekki að örvænta, því þau eru ekki að hætta.

 

Hjón og traustir vinir

„Þetta er lífsstíll, við vinnum náið saman og búum við hliðina á heilsugæslunni. Þetta er eins og á sveitabæjunum þar sem hjón vinna saman úti og inni,“ segir Helga. Ágætlega gengur að sögn Helgu að halda vinnunni og fjölskyldulífinu aðskildu en vissulega þurfi þau oft að ræða vinnuna þótt það sé ekki gert við eldhúsborðið.

„Við notum hvort annað sem stuðningsaðila því það er gott að hafa hvort annað til að vinna úr erfiðum hlutum tengdum vinnunni. Við tengjumst íbúunum bæði á sorgar- og gleðistundum, sem er í senn krefjandi og gefandi.“

 

Hlakka til að mæta í vinnuna

Helga segir að þau hafi í raun hlakkað til að mæta í vinnuna í 30 ár. Annars hefðu þau ekki enst jafn lengi og raun ber vitni í starfinu.

Á heilsugæslunni í Vík starfa auk hjónanna læknaritari og sjúkrabílstjórar. Helga er einn sjúkraflutningamanna í Vík og er því oft á vakt.

Héraðið sem heilsugæslan þjónar er í Vestur-Skaftafellssýslu og í Rangárvallarsýslu. Störfin eru fjölbreytt, allt frá ungbarnavernd til öldrunar- og bráðaþjónustu og allt þar á milli.

Hjónin gerðu upphaflega ráð fyrir að stoppa í Vík í ár, en hvorugt þeirra er þaðan; Helga er Bolvíkingur og Sigurgeir er borinn og barnfæddur Reykvíkingur. „Okkur líður afskaplega vel hér og erum ákaflega þakklát fyrir þennan tíma sem við höfum átt með góðu fólki. Við höfum alið upp fjögur börn sem öll hafa sterka tengingu við svæðið. Svo er þetta einstaklega fallegt hérað,“ segir Helga.

Í litlu samfélagi þekkjast allir vel og segir Helga það kosti og allir þurfi að vera virkir í samfélaginu. Hún hefur sjálf gegnt hinum ýmsu hlutverkum í samfélaginu, verið í sveitarstjórn og gegnt embætti oddvita. „Fyrst hafði ég áhyggjur af því að það færi ekki saman að sinna báðum störfunum því það þurfti að taka óvinsælar ákvarðanir en þetta gekk upp.“

 

Innviðir ferðaþjónustunnar

Mesta breytingin á seinni árum er gríðarleg fjölgun ferðamanna til Víkur og kemur þessi fjöldi fram í heilbrigðisþjónustunni, að sögn Helgu. Vík og nágrenni er þriðji vinsælasti viðkomustaður ferðamanna. „Þegar talað er um uppbyggingu innviða í ferðaþjónustunni þarf ekki að einblína eingöngu á stíga og klósett heldur einnig heilbrigðisþjónustuna. Hún er einn af þessum innviðum sem þarf að hlúa vel að,“ segir Helga. Spurð hvort fjölga þyrfti starfsfólki í heilbrigðisþjónustunni í Vík segir hún að það mætti skoða.

Í starfi sínu sem sjúkraflutningamaður þarf Helga oft að fara upp um fjöll og firnindi til að koma fólki til hjálpar. Í sumar þurfti hún til að mynda að fara nokkrum sinnum upp göngustíginn hjá Skógafossi. Spurð hvort hún væri ekki í fantaformi sagði hún það vera „fínt“. Helga, sem er 56 ára, bætti því við að hún hreyfði sig reglulega, „annað gengur ekki upp“. Hún syndir á hverjum morgni og er í hópi vaskra kvenna sem hittast á hverjum morgni í sundi.

 

Morgunblaðið miðvikudagurinn 9. september 2015.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31