TIL SKÝRINGAR BÓKARHEITINU: VATNSFJÖRÐUR Í ÍSAFIRÐI
Í bókinni segir frá höfuðbólinu og kirkjustaðnum Vatnsfirði í Ísafjarðarsýslu eftir því sem gamlar heimildir greina.
Í sögum, skjölum, bréfum, annálum og öðrum heimildum frá eldri tíð, sem fylgt er í bókinni, er Vatnsfjörður í Ísafirði föst samsetning og má nefna dæmi úr kaupbréfi sem frú Ólöf Loftsdóttir ríka gerði árið 1469 „í skrifstofunni á Vatnsfjarðarstað í Ísafirði.“ Líklega liggur að baki þessari föstu skilgreiningu þörf á aðgreiningu milli Vatnsfjarðar í Ísafjarðarsýslu og Vatnsfjarðar í Barðastrandarsýslu.
Í samsetningunni Vatnsfjörður í Ísafirði kemur fram skýr staðarákvörðun þar sem fjörðurinn Vatnsfjörður gengur tvímælalaust inn úr firðinum Ísafirði sem er innstur fjarða í Ísafjarðardjúpi og skiptir miklu máli í sögu Vatnsfjarðar. Ísafjörður var innan landnáms Snæbjarnar Eyvindarsonar, landnámsmannsins sem bjó í Vatnsfirði, og fram af botni Ísafjarðar var um aldir afréttarland kirkjunnar í Vatnsfirði. Bókarheitið Vatnsfjörður í Ísafirði var því valið í sögulegu ljósi með tilliti til landnýtingar og af virðingu fyrir hinni fornu nafnhefð sem skylt þótti að halda til haga.
Ekki hvarflaði að höfundi að nafn bókarinnar gæti valdið reiði eða misskilningi nútímamanna fyrir þá sök að sjálfum firðinum Ísafirði yrði ruglað saman við þéttbýlisstaðinn Ísafjörð. Nú liggur fjölfarin þjóðbraut fyrir fjörðinn innst í Djúpi og staðarákvörðunin Vatnsfjörður í Ísafirði má því liggja alþjóð í augum uppi nú sem fyrr.
Guðrún Ása Grímsdóttir.