TEIGSSKÓGUR: - VEGAGERÐIN VELUR ÓDÝRASTA KOSTINN
Vegagerðin telur að leið Þ-H um Gufudalssveit sé besti kosturinn við val á nýrri leið um Gufudalssveit. Sú leið liggur meðal annars um Teigsskóg í Þorskafirði. Í matsskýrslu sem Vegagerðin hefur nú lagt fram vegna umhverfismats kemur fram að vegagerðin hafi óhjákvæmilega neikvæð áhrif á umhverfið og er leið Þ-H önnur af tveimur leiðum sem hafa mest áhrif á landslagið. Þegar Skipulagsstofnun hefur gefið út álit sitt á matsskýrslunni sækir Vegagerðin um framkvæmdaleyfi til Reykhólahrepps. Stefnt hefur verið að því að hefjast handa í ár. Samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar er álits Skipulagsstofnunar að vænta í síðasta lagi 27. mars 2017.
Leið Þ-H þverar Þorskafjörð, fer um Teigsskóg og þverar Djúpafjörð og Gufufjörð. Hún styttir Vestfjarðaveg um helming, eða rúma 20 km, á þessum kafla og liggur öll um láglendi.
Samkvæmt matskýrslunni mun vegagerðin hafa veruleg neikvæð áhrif á landslag og verndarsvæði.
Kostnaður við mismunandi leiðir vegur þungt við ákvörðun Vegagerðarinnar um val á vegstæði. Áætlað er að Þ-H kosti 6,4 milljarða kr. sem er 4 milljörðum minna en næstódýrasti kosturinn. Einnig hefur það áhrif á valið að gert er ráð fyrir Þ-H leiðinni í skipulagi sveitarfélagsins og áætlunum ríkisins um gerð jarðganga.