A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
Bjarni Guðmundsson.
Bjarni Guðmundsson.

Í dag laugardaginn 21. nóvember 2015 klukkan 13:00, verður opnuð sýning á myndum og texta eftir Dýrfirðinginn Bjarna Guðmundsson í Safnahúsinu í Borgarnesi. Sýningin ber heitið „Leikið með strik og stafi,“ en þar sýnir Bjarni verk sem hann kallar myndyrðingar. Í tilkynningu frá Safnahúsinu segir að Bjarni hefur lagt mikla rækt við miðlun menningararfsins, sérstaklega með störfum sínum fyrir Landbúnaðarsafn Íslands svo og með ritun heimildarita um einstaka þætti landbúnaðar. Hann er mörgum hæfileikum búinn og segir sjálfur að ein dægradvöl sín sé að teikna og það hefur hann gert frá unga aldri. Á síðari árum hefur hann gjarnan sett hugleiðingar sínar um menn og málefni fram á samfélagsmiðlum með teikningum og svipmikilli íslensku.

 

Bjarni er fæddur og uppalinn að Kirkjubóli í Dýrafirði en hefur búið á Hvanneyri um áratuga skeið. Hann brást vel við beiðni Safnahúss um að sýna verk sín og nálgast það viðfangsefni af þeirri hógværð sem honum er eiginleg. Hann segir m.a.: „Fátt er betra á langdregnum fundi, í prófyfirsetu eða undir góðum útvarpslestri eða þægilegri tónlist en að teikna. Mynd hefur komið upp í hugann eða borið fyrir: Þá er freistandi að færa hana í strik og stafi.“

Eitt af áhugamálum Bjarna er tónlist og hann er sjálfur lipur gítarleikari. Til opnunar sýningarinnar í Safnahúsinu kemur hann með gítarinn með sér. Einnig mun hann kynna nýja bók sína; Íslenskir sláttuhættir. Hún verður til sölu á staðnum og allur ágóði af sölunni rennur til Landbúnaðarsafnsins.

Sýning Bjarna er í Hallsteinssal á efri hæð Safnahúss og stendur til 20. janúar næstkomandi. Á opnunardaginn verður opið til kl. 16.00 og eftir það alla virka daga 13.00 – 18.00 eða á öðrum tímum eftir samkomulagi.



« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31