A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
30.12.2014 - 20:22 | BIB,skutull.is

Sýningamet hjá Kómedíuleikhúsinu árið 2014

Tengdasonur Dýrafjarðar; Elfar Logi Hannesson í hlutverki fornkappans og Dýrfirðingsins Gísla Súrssonar.
Tengdasonur Dýrafjarðar; Elfar Logi Hannesson í hlutverki fornkappans og Dýrfirðingsins Gísla Súrssonar.
« 1 af 3 »
Kómedíuleikhúsið á Ísafirði sett nýtt sýningamet á árinu 2014. Sýningar vestfirska atvinnuleikhússins urðu alls 81 á árinu sem er að kveðja og hafa aldrei verið fleiri. Elfar Logi Hannesson leikhússtjóri segir árið hafa verið viðburðaríkt, líkt og fyrri ár í sögu leikhússins. Nýtt íslenskt leikrit var frumsýnt á árinu og kennslubókin Leikræn tjáning var gefin út. Leikverkið Halla, byggt á sögu Steins Steinarr var frumsýnt á árinu og verðlaunaleikritið Gísli Súrsson var sýnt 33 sinnum. Þrátt fyrir metár er rekstur einmenningsleikhúss erfiður og Elvar Logi segir í áramótakveðju að leita þurfi nýrra leiða til að tryggja áframhaldandi starfsemi leikhússins. Næsta ár verði því ár breytinga.

Kómedíuleikhúsið bætti enn einni skrautfjöður í hatt sinn ár árinu 2014 þegar það frumflutti enn eitt íslensk leikverk, Höllu, byggt á samnefndri sögu eftir vestfirska skáldið Stein Steinarr. Frumsýningin var 12. apríl í Safnahúsinu á Ísafirði og verkið var sýnt 11 sinnum víða um land, í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði og skólum fyrir vestan, norðan og austan. Höfundar leikgerðarinnar eru Elfar Logi Hannesson og Henna-Riikka Nurmi, sem léku og dönsuðu í verkinu, Guðmundur Hjaltason samdi tónlistina og Marsibil G. Kristjánsdóttir sá um leikmynd, búninga og leikstjórn.

Sú sýning sem oftast var sýnd árið 2014 var verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson, sem sýndur var 33 sinnum. Til stóð að hætta með sýninguna nú í haust, en sú ákvörðun hefur verið sett á ís því þegar er búið að bóka margar sýningar á komandi ári. Sýningarnar á Gísla Súrssyni eru nú alls orðnar 291 ,,og fyrst við erum að nálgast þriðja hundraðið þá er alveg óhætt að taka hundrað í viðbót, eða þar um bil," segir Elfar Logi Hannesson.

Hinn útlaginn, Fjalla-Eyvindur, var einnig í fanta stuði og á fleygiferð um landið. Alls var hinn gamansami fjallaleikur sýndur 24 sinnum. Loks má geta hinnar vinsælu jólasýningar Bjálfansbarnið og bræður hans sem var sýnd 7 sinnum núna fyrir jól. ,,Hinum vestfirsku jólasveinum hefur nú verið skutlað aftur í helli inn og skellt lokunni fyrir. Enda hafa þeir málað bæinn rauðann síðustu fjögur ár. Kannski eftir einhver ár opnum við helli jólasveinanna að nýju. Nokkrir góðkunningjar Kómedíu voru og sýndir á leikárinu. Svo alls enduðum við í 81 sýningu á leikárinu sannarlega kómískt."

Kómedíuleikhúsið réðst í það þarfaverk að gefa út kennslubók um leiklist á árinu. Mikill skortur er á þess háttar bókum á hinum íslenska markaði sem er sannarlega synd. Því leiklistin hefur einmitt verið að hasla sér völl í skólum landsins síðustu ár og er það bara frábært. Bókin nefnist einfaldlega Leikræn tjáning og er eftir Kómedíuleikarann Elfar Loga Hannesson. ,,Drengurinn sá hefur kennt leiklist um land allt í um tvo áratugi og miðlar hér af reynslu sinni. Bókin Leikræn tjáning er í raun æfingabanki í leiklist sem nýtist kennurum í faginu á öllum stigum listarinnar. Efnið er fjölbreytt allt frá leikjum til spuna og leikhússlagsmála. Það er ekki auðvelt að gefa út bækur á Íslandi og því þarf að leita leiða til að ná fyrir ævintýrinu ná þessu fræga núlli sem verið erum alltaf að berjast fyrir í listinni. Fyrir nokkru kom góð leið fyrir okkur litlu spámennina í listinni. Það er apparat að nafni Karolinafund.com. Þetta er síða á alnetinu þar sem notendur geta fjárfest í verkefnum og komið þeim þannig á koppinn. Þessa leið fórum við og náðum okkar markmiði svo bókin Leikræn tjáning komst alla leið úr prentvélum og í hendur notenda um land allt."

,,Ár Kómedíuleikhússins hefur sannarlega verið kómískt og sögulegt. Það verður þó að segjast að þrátt fyrir allar góðu fréttirnar þá gengur reksturinn ekki vel. Við náum ekki endum saman. Ljóst er að við verðum að breyta miklu til að ná áttum og tryggja okkar brothættu stoðir. Það er verkefni komandi árs og hlökkum við til að takast á við verkefnið. Árið 2015 verður sannarlega ár breytinga hjá Kómedíuleikhúsinu og í því felast bara tækifæri, ekkert gaman að vera alltaf að gera það sama. Lífið er jú kómedía þegar öllu er á botninn hvolft," segir Elfar Logi í áramótakveðju sinni.
« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31