Súgfirðingar eignast verbúð • Byggð að þúsund ára gamalli fyrirmynd
„Verbúðir voru íverustaðir sjómanna sem reru til fiskjar á árum áður frá landnámi. Þetta eru steinhlaðin hús við sjávarströndina. Þessar minjar eru einfaldlega að hverfa í brimið með hækkandi sjávaryfirborði og landsigi,“ segir Eyþór Eðvarðsson, formaður Fornminjafélags Súgandafjarðar, en félagið hefur reist verbúð í Staðardal í Súgandafirði að þúsund ára gamalli fyrirmynd.
„Verkefnið byrjaði með stofnun Fornminjafélagsins fyrir rúmum þremur árum. Við stofnuðum félagið til þess að skoða hvað væri til af fornminjum í firðinum, skrá örnefni og sögu fornra hluta og svæða. Einnig erum við að safna gömlum ljósmyndum á vefsvæði,“ segir Eyþór en bygging verbúðarinnar hófst síðastliðið sumar.
„Við fengum Valdimar Össurarson úr Kollsvík til þess að rýna í gamlar verbúðir og hann kom með tilgátu um hvernig þetta leit út. Fyrirmyndin er sótt í gamla tímann og því mjög einföld, byggð úr grjóti, torfi og viði.“
Eyþór segir að margar fornminjar séu í Súgandafirði og eins á öllu landinu. „Ísland er búið að skrá um 25% af fornminjum sínum, sem er mjög lítið en það vantar pening í verkefnið.“
Allt unnið í sjálfboðavinnu
„Í næsta nágrenni má sjá tóftir af verbúðum en í Staðardalnum var róið til fiskjar frá nokkrum verstöðvum; Stöðinni, Árósnum og Keravíkinni,“ segir Eyþór og bætir við að verkefnið hafi verið unnið í góðu samstarfi við Minjastofnun sem m.a. tók út svæðið áður en framkvæmdir hófust til að tryggja að engum minjum yrði raskað.
Verbúðin hefur fengið nafnið Ársól eftir kvenfélaginu sem rak réttarskálann sem var á sama stað og búðin er byggð á. Sá skáli var rifinn fyrir einhverjum tugum ára, að sögn Eyþórs. „Við heiðruðum kvenfélagið með því að nefna búðina eftir því.“
Við hliðina á verbúðinni er sexæringur sem Fornminjafélag Súgandafjarðar fékk frá bátasafninu á Reykhólum og er hann um 80 ára gamall. „Við ætlum einnig að setja niður aflraunasteina en algengt var að sjómenn reyndu sig í aflraunum, og hugsanlega búa til hróf fyrir bátinn, fiskgarða og trönur. Við ætlum líka að skoða inni í búðinni hvað við getum gert þar, hvernig fletin voru og eldunaraðstaða.
Fjöldi félagsmanna og annarra velunnara kom að verkefninu og sýndi því mikinn velvilja. Allt var unnið í sjálfboðavinnu og það sem þurfti að kaupa var keypt með félagsgjöldum Fornminjafélagsins. Þessi verbúð er fyrir okkur alla Íslendinga, þetta er okkar þjóðararfur. Þetta er líka svo gríðarlega fallegur staður. Allir eru velkomnir en við biðjum fólk bara að ganga vel um.“
Morgunblaðið
laugardaginn 15. júlí 2017.