A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
03.03.2016 - 08:04 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Suðureyri: - Ferðamennirnir heillaðir af slorinu

Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fisherman á Suðuireyri. Ljósm.: Mbl.
Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fisherman á Suðuireyri. Ljósm.: Mbl.
Á Suðureyri hefur orðið til fyrirtæki sem tengir saman sjávarútveg og ferðaþjónustu. Lesendum kann að þykja það undarlegt en fyrir mörgum erlendum ferðamanninum er það hápunktur heimsóknar til Íslands að upplifa allt ferli fisks í litlu sjávarþorpi, frá hafi og ofan í maga.

„Þetta er nákvæmlega það sama og Íslendingar eru að sækjast eftir þegar þeir ferðast til Frakklands til að skoða vínbúgarða, eða þekkta matvælaframleiðslu annarra þjóða. Erlendir gestir vilja upplifa atvinnumenningu Íslendinga. Við erum fiskveiðiþjóð en ekki bankaþjóð,“ segir Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fisherman (www.fisherman.is).

 

Fjölskyldan gerði upp lítið hús

Saga fyrirtækisins hófst fyrir fimmtán árum þegar fjölskylda Elíasar eignaðist lítið hús í þorpinu. Átti að rífa húsið, svo ekki þurfti að borga mikið fyrir bygginguna. „Þetta byrjaði sem lítið áhugamál hjá okkur. Fyrir húsið greiddum við 50.000 kr. og endurbyggðum hvenær sem laus stund gafst. Vorið 2001 gátum við leigt þar út fjögur herbergi til ferðamanna. Á þessum tíma var ekkert sem hét ferðaþjónusta á þessum slóðum og var hótelreksturinn í raun algjört aukatriði og snerist þessi iðja okkar fyrst og fremst um að gera eitthvað uppbyggilegt við dauðar stundir.“

Smám saman hefur starfsemi Fisherman vaxið og dreifist nú yfir nokkur hús í bænum. Frá og með næsta vori verða 19 herbergi í útleigu og stefnt á 26 herbergi með nýrri viðbyggingu sem er verið að undirbúa fyrir framkvæmdir. Samhliða hótelrekstrinum rekur Fisherman veitingastað og kaffihús og tvinnast öll starsfemin saman við sjávarútvegs- og matartengdar ferðir um svæðið.

„Í ferðunum blöndum við saman þremur áhersluþáttum í ólíkum hlutföllum: sögu svæðisins, matarmenningunni og nátúrunni,“ segir Elías. „Í náttúruferðinni liggur leiðin meðal annars að Dynjanda, með stoppi á Þingeyri og Suðureyri á bakaleiðinni, og komið við á völdum stöðum þar sem má smakka fiskrétti heimamanna. Söguferðin sýnir ferðalöngunum elstu verstöð landsins í Bolungarvík, sjóminjasafnið á Ísafirði, fræðir um hvernig Ísland byggðist upp í kringum sjómennskuna og endað á fiskismakki á Suðureyri.“

 

Steinbítur undir berum himni

Loks er í boði sjávarréttaferð. „Þetta köllum við gúrme-ferð og m.a. er komið við í fiskhjalli þar sem má smakka hjallþurrkaðan harðfisk, barinn á steini. Við heimsækjum fiskvinnslu og skoðum hvað er um að vera niðri við bryggju. Einn af hápunktunum er þegar við bjóðum fólki að smakka þorskhnakka matreidda í tapas-stíl og leyfum gestunum að gæða sér á steinbít undir berum himni. Endar ferðin í því sem við köllum Fiskiskólann, í rými á bak við kaffihúsið. Þar læra ferðalangarnir að elda suður-amerískan skyndirétt, ceviche, sem er gerður án allrar utanaðkomandi orku, og gæða sér á kræsingunum.“

Suðuramerísku áherslurnar í matnum í sjávarréttaferðunum eru komnar til vegna þess að Fisherman vill sýna erlendu ferðalöngunum breiddina sem hráefnið býður upp á og sýna nýstárlega eldun á fiski. „Við erum vistvænt veiðisamfélag og við þurfum, sem dæmi, ekki orku til að elda fiskinn,“ segir Elías. „Á veitingastaðnum og kaffihúsinu gerum við sjávarafurðunum hins vegar skil á hefðbundnari nótum, að hætti heimamanna.“

Aldrei er neitt sett á svið og frekar reynt að haga ferðunum þannig að eitthvað sé um að vera á þeim stöðum sem hópurinn heimsækir. „En ef svo ber til að ekkert er að gerast í fiskvinnslunni lýsum við því einfaldlega fyrir fólki hvað þar er gert.“

 

Sýna vinnu sína með stolti

Segir Elías að útlendingunum þyki mikil upplifun að sjá vönduð handtökin og fullkomna tæknina í veiðum og vinnslu sjávarafurða, og vitaskuld eru allir klæddir í viðeigandi hlífðarfatnað til að tryggja öryggi og fullnægja ströngum gæðakröfum matvælafyrirtækjanna. Virðist það ekki trufla fólkið sem starfar við sjávarútveginn þó fylgst sé með því við störfin, og raunar sýna sjómennirnir og fiskvinnslufólkið vinnu sína með glöðu geði. „Íbúarnir á svæðinu eru mjög stoltir af því sem þeir eru að gera, enda atvinnugrein sem ber af í samanburði við önnur lönd og hátækniframleiðsla eins og best þekkist.“

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 3. mars 2016.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31