28.06.2011 - 10:40 | JÓH
Styttist í kassabílarallýið
Keppni í kassabílarallý fer fram á Dýrafjarðardögum um næstu helgi, laugardaginn 2. júlí. Kassabílarallýið hefur verið fastur liður í dagskránni frá árinu 2008 enda viðburður sem öll fjölskyldan hefur gaman af. Krakkar á Þingeyri voru í óðaönn við smíðar í gær og ljóst er að mikil spenna er fyrir keppninni. Veitt verða vegleg verðlaun fyrir þrjú efstu sætin en dómnefnd mun einnig verðlauna myndarlegasta bílinn. Keppnin er ætluð börnum á grunnskólaaldri og eru allir hvattir til að mæta með bílinn sinn og taka þátt. Athugið að kassabílarallýið er á laugardeginum í ár, ekki á sunnudeginum eins og verið hefur, og hefst keppnin á frystihúsaplaninu kl. 16:30.