07.07.2009 - 10:13 | bb.is
Styttist í hestamannamót Storms
Árvisst hestamannamót Storms verður haldið á Söndum í Dýrafirði á föstudag og laugardag. Rétt til þátttöku hafa allir þeir sem skráðir eru í félög innan Landssamband hestamanna.Keppt verður í A- flokki gæðinga, B-flokki gæðinga, ungmennaflokki, unglingaflokki, barnaflokki og gæðingatölti. Að móti loknu á laugardag verður farið í hinn árvissa útreiðartúr en forreiðarsveinn verður Guðmundur Ingvarsson. Allir hestfærir eru velkomnir með. Um kl. 20 hefst grillpartý í reiðhöllinni þar sem allir koma með mat fyrir sig og njóta samverunnar saman. Trúbadorinn og sundgarpurinn Benedikt Sigurðsson heldur uppi stuði með hestamönnum og gestum þeirra og tendraður verður varðeldur. Nánari upplýsingar er að finna á vef Storms.