A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
23.07.2015 - 10:31 | Hallgrímur Sveinsson

Sturla Jónsson

Árið 1976 var Sturla Jónsson gerður að heiðursborgara Suðureyrarhrepps. Myndin sýnir er Ólafur Þ. Þórðarson, þáverandi oddviti veitti honum heiðursborgaraskjalið í Félagsheimili Suðureyrar.
Árið 1976 var Sturla Jónsson gerður að heiðursborgara Suðureyrarhrepps. Myndin sýnir er Ólafur Þ. Þórðarson, þáverandi oddviti veitti honum heiðursborgaraskjalið í Félagsheimili Suðureyrar.
« 1 af 4 »

Úr kurteisisheimsókn til Suðureyrar í Súgandafirði

3. þáttur

Einhver nafnkunnasti maður á Suðureyri á 20. öld var Sturla Jónsson hreppstjóri. Við stöldruðum við hús hans. Sturla var eftirminnilegur persónuleiki. Hann var mikill baráttumaður fyrir Súgandafjörð. Hann sagði oft á þingum og vitnaði þá til þeirra dönsku:“Súgandafjörður besejles ikke.“ Ekki er siglt til Súgandafjarðar. Þetta taldi hann vott þess hversu staðurinn hafði oft verið afskiptur. Notaði það óspart til að fá menn í lið með sér í ýmsum baráttumálum Súgfirðinga. Vitnum nú aftur í Ólaf Þ. Þórðarson, alþingismann, þegar hann minntist vinar síns í Mbl. 12/10 1996:

„Hann var oddviti Súgfirðinga í 24 ár, hreppstjóri í 30 ár og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga í 15 ár. Þetta er þó aðeins hluti af þeim félagsstörfum sem hann sinnti.

   Níu ára gamall byrjaði Sturla sjómennsku á handfæraveiðum á vélbátnum Svani. Jón Einarsson, faðir hans, var formaður á bátnum. Þetta var að sumarlagi. Útilegan var oftast 4 til 6 dagar. Saltað var um borð. Frá fermingaraldri til 32 ára aldurs stundaði hann sjóinn. Þar af var hann formaður í 9 ár. Eftir það rak hann eigin útgerð í áratugi. Hann rak einnig fiskverkun í landi með öðrum en síðar sína eigin.

   Þing Fjórðungssambandsins nutu ekki virðingar allra fremur en önnur þing. Eitt sinn sem oftar er þingið var haldið í Bjarkarlundi, sem jafnframt var greiðasölustaður, gerðist eftirfarandi:

   Stór maður vexti, nokkuð við skál, spurði hverjir hinir prúðbúnu menn væru er sátu þar í hliðarsal. Honum var tjáð að það væru fulltrúar á Fjórðungsþingi. "Ég þarf að tala við þá andskota," sagði hann og stefndi þar að. Sturlu var gert viðvart og fylgdust menn grannt með til hvaða ráða yrði nú gripið. Sturla gekk á móti manninum, hvessti á hann augun og hellti yfir hann af brennandi mælsku Haukadalsfrönsku, sem var verslunarþula á frönsku, kennd við Haukadal í Dýrafirði. Hinum stóra manni varð svo um þetta að hann tók ofan derhúfuna, hneigði sig og fór út. Þessa sögu sagði mér Jón Á. Jóhannsson sem þá var skattstjóri á Ísafirði. Hann, sem fleiri fundarmenn, höfðu mjög gaman af þessu atviki.-

   Sturla var gæfumaður í lífinu. Kona hans, Kristey Hallbjarnardóttir sem er látin, var hans hamingjusól. Hún er minnisstæð öllum sem kynntust henni. Þau bjuggu við barnalán en það mótlæti að Kristey varð að vera í hjólastól langan hluta sinnar ævi eða frá því að hún var hálffertug að aldri. Hún var eftir sem áður hin virka húsmóðir. Hennar ríki virti Sturla.

   Sturla var heiðursborgari Suðureyrarhrepps. Það var gæfa lítils fjarðar að eiga hann og njóta verka hans í þágu samfélagsins. Það er von mín að Súgandafjörður eignist fleiri forustumenn sömu gerðar.-

   Mér finnst þeim mönnum fækka sem gera miklar kröfur til sjálfra sín. Ég veit að slíkir menn gera löngum einnig miklar kröfur til annarra, en þeir eru helst til margir sem aldrei gera kröfur til sjálfra sín en aðeins til annarra.“
  
Meistaraleg hliðopnun

 

Sturla Jónsson, hreppstjóri á Suðureyri, var lengi í Hrafnseyrarnefnd.

Ógleymanlegur maður. Hann átti Land-Rover jeppa sem hann kallaði fjallatrukkinn sinn. Sturla var svo forsjáll að hann ók aldrei fram hjá bensíntank án þess að fylla á og voru þeir þó víða á þeim árum. Hann brúkaði hvorki vín eða tóbak og aldrei heyrði neinn hann blóta.

   Nú var það eitt sinn, að boðað var til fundar á Hrafnseyri og kom Sturla akandi á fjallatrukknum sínum og með

honum Halldór Kristjánsson frá Kirkjubóli, sem einnig sat mörg ár í Hrafnseyrarnefnd. Um morguninn fundardaginn,

stóðu þeir í sakleysi sínu úti á hlaði, Hannibal Valdimarsson og Ágúst Böðvarsson sem báðir áttu sæti lengi í Hrafnseyrarnefnd, ásamt staðarhaldara, Hallgrími Sveinssyni, og voru að taka sólarhæðina. Sjá þeir þá allt í

einu hvar blár bíll kemur þjótandi upp heimreiðina. Þetta var áður en rörahliðið var sett upp við innkeyrsluna þar á

staðnum, en hefðbundið vængjahlið var lokað. Skipti það engum togum að sú hin bláa bifreið ók í gegnum hliðið

og sviptust hliðgrindurnar upp sem ekkert væri og flaggstengur tvær sem þjónuðu sem hliðstaurar léku á reiðiskjálfi.

Ók fjallatrukkurinn, því þetta var auðvitað hann, sem leið lá heim á hlað og út stigu þeir Sturla og Halldór og heilsuðu innvirðulega.

Áðurnefndir áhorfendur að atburði þessum stóðu sem steini lostnir og fóru að aðgæta hvort ekkert sæist á þeim bláa. Var það eiðsvarið að svo var ekki og þeir kumpánar, Sturla fjallabílstjóri og Halldór á Kirkjubóli

sögðust einskis hafa orðið varir! Ekki skemmdust hliðgrindurnar að heldur. Mun þetta vera meistaralegasta hliðopnun sem um getur í Arnarfirði og verður lengi í minnum höfð.

 

Hallgrímur Sveinsson.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31