A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
01.05.2016 - 20:57 | Vestfirska forlagið,Guðmundur Jón Sigurðsson

Stórsigur á Flateyri fyrir 35 árum

Forgöngumenn. Myndin var tekin í stofunni heima hjá Ægi sparisjóðsstjóra þegar skrifað var undir hið merka tímamótasamkomulag fyrir 35 árum síðan. Frá vinstri, Björn Ingi Bjarnason formarður Verkalýðsfélagsins Skjaldar, Ægir E. Hafberg sparisjóðsstjóri í Sparisjóði Önundarfjarðar og Einar Oddur Kristjánsson forstjóri Hjálms HF. á Flateyri langstærsta atvinnurekenda þorpsins.
Forgöngumenn. Myndin var tekin í stofunni heima hjá Ægi sparisjóðsstjóra þegar skrifað var undir hið merka tímamótasamkomulag fyrir 35 árum síðan. Frá vinstri, Björn Ingi Bjarnason formarður Verkalýðsfélagsins Skjaldar, Ægir E. Hafberg sparisjóðsstjóri í Sparisjóði Önundarfjarðar og Einar Oddur Kristjánsson forstjóri Hjálms HF. á Flateyri langstærsta atvinnurekenda þorpsins.
« 1 af 2 »

Um áratuga skeið var allt orlofsfé landsmanna lagt inn á reikninga hjá Póstgíróstofunni sem þá var til. Þarna var peningur fólks vistaður vaxtalítið ríkinu til hagsbóta. Þetta fyrirkomulag hafði lengi verið verkalýðsforkólfum á Vestfjörðum þyrnir í augum.

Hendrik Tausen sem um árabil var formaður verkalýðsfélagsins Skjaldar á Flateyri hafði nokkrum sinnum viðrað þá hugmynd að allt orlofsfé yrði ávaxtað og geymt í heimabyggðum en fengið lítil viðbrögð. Björn Ingi Bjarnason varð síðar formaður félagsins og telst með réttu hafa hlotið félagslegt uppeldi hjá Hendrik, tók þetta mál upp á sína arma eftir að hann hafði tekið við félaginu.

Þegar farið var að láta reyna á möguleika þess að ávaxta allt orlofsfé sem til félli á Flateyri í Sparisjóði Önfirðinga fóru að berast boð að sunnan eins og sagt er þegar hið opinbera leggur afl sitt í að bregða fæti fyrir framfarir.

En á Flateyri voru kjarkaðir menn sem voru meira en tilbúnir til að berjast fyrir því sem bæði var löglegt og ekki síður til mikilla bóta fyrir launafólk og byggðina alla.

„Stærsti atburðurinn á mínum ferli í verkalýðsfélaginu er samningurinn um að orlofsfé launafólks á Flateyri yrði greitt inná reikninga þeirra í Sparisjóði Önundarfjarðar og því ávaxtast í heimabyggð í stað þess að geymast vaxtalítið hjá Póstgíróstofunni eins og verið hafði. Þetta var gömul hugmynd frá formannsárum Hendriks en hafði ekki komist í framkvæmd. Það var ekki einfalt að landa þessu.

Atvinnurekendur á staðnum sem og sparisjóðurinn voru undir gríðarlega miklum þrýstingi að sunnan um að gefa sig ekki. Þarna sýndi Einar Oddur Kristjánsson, forstjóri Hjálms hf, þann kjark sem til þurfti og hann taldi skynsamlegast fyrir fólkið, fyrirtækið og byggðina. Það var einmitt þessi kjarkur hans sem gerði þjóðarsáttasamningana að veruleika á sínum tíma. Hann bugaðist ekki undan pressu valdamikilla aðila.

Ægir E. Hafberg sparisjóðsstjóri, sem nú stýrir Landsbankanum í Þorlákshöfn, lét bankakerfið heldur ekki buga sig þrátt fyrir hreint ofurmannlega pressu sem hann var beittur.

Það er stærsta og sælasta stund félagsmálaferils míns þegar skrifað var undir þennan samning í stofunni heima hjá Ægi E. Hafberg sparisjóðsstjóra. Í fyrstu var Hjálmur hf. eina fyrirtækið, enda stærsta og öflugasta fyrirtæki staðarins, en hin komu öll á eftir þannig að þetta baráttumál félagsins fékk farsælan endi.“ Þetta segir Björn Ingi fyrrum formaður nú 35 árum síðar.

Þess má geta að þetta samkomulag sem undirritað var af þessum þremur stórhuga og kjarkmiklu forystumönnum varð auðvitað fyrirmynd að samskonar samningum um allt land eftir að ríkið hafði verið lagt að velli með þessu samkomulagi á Flateyri.

 

Guðmundur Jón Sigurðsson.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31