Stjórnsýslan: - Því fleiri hjálpartæki, þess lakari stjórnsýsla!
Þjónar almennings eru með símann í höndunum meira og minna allan daginn og tölvurnar eru hvert sem litið er. Það er beinlínis hlægilegt að horfa á þingmenn glápandi í símann sinn á þingfundum. Ráðherrarnir skilja ekki þetta litla tæki við sig. Það á að vera hægt að ná í menn hvenær sem er. Nema hvað. Samt eru þeir aldrei við! Kostulegt er að sjá þegar ráðherrar koma á ríkisstjórnarfund, stormandi upp tröppurnar að gamla betrunarhúsinu. Þá eru þeir oft blaðrandi í símann á ábúðarmikinn hátt. Við hverja skyldu þeir alltaf vera að tala?
Í gamla daga voru menn annaðhvort við eða þeir voru ekki við. Í dag eru menn auðvitað að vinna í tölvunni, tala í símann eða senda SMS skilaboð!
Maður skyldi ætla að stjórnsýslan væri helmingi betri í dag en í gamla daga. En er það svo? Er ekki mikið til í jöfnunni sem ungi pilturinn fann upp: Því fleiri hjálpartæki, þess lakari stjórnsýsla?