Stækkun Mjólkárvirkjunar í skoðun
Tilboð í mismundandi útfærslur og fjölda véla voru opnuð í janúar á þessu ári. Fjögur tilboð bárust og stendur yfirferð þeirra yfir. Sölvi segir vonir standa til að á næstu vikum verði yfirferðinni lokið en áður en samið verður við framleiðanda, þarf ákvörðun OV að liggja fyrir, hvort framkvæmdin takmarkist við endurbætur á núverandi virkjun eða hvort stærsti kosturinn verði valinn og fjórar vélar keyptar.
Stefnt er að því að fyrsta vélin verði sett upp á næsta ári og verður það væntanlega endurnýjun á vél II. Útboðið hefur leitt í ljós að hagkvæmast er að endurnýja alla vélina og munar þar mestu um aukna orkuvinnslu miðað við að halda eftir hluta af gömlu vélinni. Orkuvinnslan eykst um rúm 7% og fer aflið úr 5,7 MW í 7 MW. Ef af fjárfestingunni verður, stendur kostnaðurinn í 500 milljónum króna. Umhverfisnefnd tekur jákvætt í erindið en bendir á að fyrirhugaðar framkvæmdir eru hugsanlega tilkynningarskyldar. Stækkunin sé í samræmi við drög að aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar fyrir árin 2008 - 2020.