Spekingarnir biðja um gott veður!
Skjaldan hefur nokkur veðurspá brugðist jafn hrapallega og langtímaspáin sem hin sýstofnaða Veðurspádeild spekinganna í Heita pottinum á Þingeyri gaf út 31. ágúst 2015. Þar stendur ekki steinn yfir steini! Þeir voru eitthvað að melda að það yrði bara sól og sumar fram að jólum! Þóttust þeir fylgjast með gangi himintungla í því sambandi og ég veit ekki hvað og hvað.
Eins og allir vita hefur varla stytt upp síðan. Slagveðursrigning og slydda! Spekingarnir segjast þó hafa þá afsökun, að jörðin var alveg ofboðslega þurr í allt sumar, engir hjalandi lækir eða neitt svoleiðis. Því sé þetta kannski eðlilegt. Svo segja þeir að það séu bæði skekkjumörk og fráhvarfseinkenni í öllum langtímaspám.
En nú biður deildin um gott veður og menn hafi biðlund. Það er nefnilega ný langtíma þjóðhagsveðurspá í pípunum hjá spekingunum í Veðurspádeildinni á Þingeyri. Þykjast þeir vera í beinu sambandi við Birtu Líf Kristinsdóttur hjá Veðurstofunni upp á ýmsa tæknilega þætti. Er það svipað og Þórarinn bóndi Sighvatsson á Höfða, sá mikli spekingur, hafði það í samskiptum við Pál Bergþórsson, þáverandi veðurstofustjóra. Páll sendi Þórarni alla útreikninga sína í pósti viðvíkjandi hitastigi á Jan Mayen ásamt háloftaveðurkortum. Spáði Þórarinn mikið í þau fræði og lét bændur í Mýrahreppi og víðar fylgjast með upp á heyskapinn. Þegar Páll hætti, lauk því samstarfi.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig hin nýja þjóðhagsveðurspá kemur til með að hljóða. Vonandi verður eitthvað meira vit í henni en í fyrstu langtímaspá þeirra félaga.