A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
21.04.2015 - 10:59 | Sögulegur fróðleikur,BIB

Spánverjavígin: Eina fjöldamorð Íslandssögunnar

Fjallaskagi við norðanverðan Dýrafjörð. Ljósm.: Bergþór Gunnlaugsson.
Fjallaskagi við norðanverðan Dýrafjörð. Ljósm.: Bergþór Gunnlaugsson.
Sögulegur fróðleikur eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson

Árið 1615 urðu skuggalegir atburðir á Vestfjörðum sem kallaðir hafa verið Spánverjavígin. Þá réðist lið heimamanna undir stjórn sýslumanns  gegn hópum spænskra skipbrotsmanna og drápu alls 32 menn í tveimur tilvikum.
Atburðir þessir gerðust annars vegar á Fjallaskaga í Dýrafirði og hins vegar á Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi.

Spánverjavígin eru oft kölluð fjöldamorð í umfjöllun sagnfræðinga og eru eini atburðurinn í sögu Íslands sem hugsanlega getur verðskuldað þá dapurlegu nafnbót.

Raunar voru það ekki Spánverjar sem í hlut áttu heldur Baskar. Baskar voru rómaðir sægarpar um aldir og gáfu víkingum ekkert eftir í skipasmíði. Þeir smíðuðu betri skip en aðrir, sigldu um öll heimsins höf og sóttu gull í greipar þeirrar náttúru sem hvert svæði bjó yfir. Svo dæmi sé tekið var stór hluti nafngreindra áhafnarmeðlima Kristófers Kólumbusar  Baskar og þeir áttu þannig sinn þátt í að stækka heiminn með landafundum 15. aldar.

Upphaflega voru hvalir veiddir vegna kjötsins en við lok miðalda var lýsið orðið verðmætasta afurðin og þótti besta ljósmeti sem völ var á. Þessi aukna eftirspurn leiddi til ofveiði og síðan þess að hvalveiðimenn leituðu nýrra miða utan sinna heimahafa.

Baskar stunduðu hvalveiðar í stórum stíl við Nýfundnaland frá því um 1530 og fram yfir 1600. Þar veiddu þeir gríðarlegt magn af sléttbak og var afraksturinn stórbrotinn en hvert skip gat borið 250 þúsund lítra af lýsi. Veiðarnar við Nýfundnaland lögðust af vegna ofveiði.
Um 1610 urðu menn þess áskynja að fjöldi hvala hélt til norður við Svalbarða og fóru Baskar og Hollendingar að sækja hvalveiðar þangað og kenna enskum sjómönnum aðferðir við hvalveiðar. Sagnfræðingar telja að um svipað leyti hafi hvalveiðar Baska við Ísland hafist.

Haustið 1615 voru Baskar að búast til heimsiglingar á þunglestuðum skipum eftir ágætt hvalveiðisumar. Þá gerði mikið vonskuveður á Ströndum og rak þrjú skipanna upp í Reykjarfirði á Ströndum og brotnuðu þau í spón. Áhafnir þeirra komust að mestu af og tóku þann kost að sigla á léttbátum vestur fyrir Horn í leit að haffæru skipi. Þetta voru alls 80 manns. Þeir komust klakklaust fyrir Horn á árabátunum en á Dynjanda í Jökulfjörðum tóku þeir stærra skip ófrjálsri hendi og skiptu liði.
Um leið og tíðindi bárust af þessu lét Ari Magnússon sýslumaður í Ögri efna til dómþings í Súðavík þar sem skipbrotsmenn voru dæmdir réttdræpir þar sem til þeirra næðist.  Samkvæmt sama dómi var bændum gert skylt að fylgja sýslumanni í herför gegn Böskunum að viðlagðri sekt ef þeir neituðu. Aukinheldur var dæmt að þeir sem ekki fylgdu sýslumanni væru þar með ábyrgir fyrir tjóni sem skipbrotsmenn kynnu að valda. Þetta var gert á grundvelli tilskipunar frá Danakonungi frá því um sumarið þar sem konungur sagði að þeir sem færu með ránskap um landið skyldu  „réttilega teknir og skaðaðir.“
Vilji menn skilja snörp viðbrögð sýslumanns mætti  rifja upp að árið 1579 réðust útlendir ofbeldismenn að Eggert Hannessyni lögmanni í Haga á Barðaströnd, rændu hann og heimili hans og misþyrmdu á margan veg. Eggert var afi Ara sýslumanns í Ögri svo óttinn við útlenda sjóræningja var hluti af menningararfi fjölskyldu hans.

Skipbrotsmenn baskneskir sem sigldu skipinu þjófstolna frá Dynjanda í Jökulfjörðum nýttu sér kunnáttu sína og skutluðu hval undan Snæfjallaströnd og gerðu sér bækistöð á Sandeyri. Þar voru þeir að gera að hvalnum þegar Ari og menn hans fóru gegn þeim og drápu átján menn þar og í Æðey sem er þar skammt undan landi. Þrettán að auki voru drepnir á Fjallaskaga í Dýrafirði eftir að þeir höfðu brotið upp dönsku verslunarhúsin á Þingeyri.

Hinir 50 úr hópi skipbrotsmanna komust til Patreksfjarðar og höfðust við í verslunarhúsum þar vetrarlangt uns þeim tókst að ræna ensku fiskiskipi og flýja á því.


Sögulegur fróðleikur eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson

Sjá enn frekar:

http://heimur.is/2014/11/08/spanverjavigin-eina-fjoldamord-islandssogunnar



 

 

 

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31