Söngstund á Mýrafelli
Það var haustið 1915 að við hittumst að Núpsskólanum í Dýrafirði. Mér kom Finnjón einkennilega fyrir sjónir fyrst í stað, dulur í skapi, hæglátur og ómannblendinn, svo mér fannst að ekki gætum við átt mikið saman að sælda. En þetta fór nú samt á annan hátt.“ Svo segir í afmælisgrein sem birtist mörgum árum síðar en skólafélaginn sem sendi Finnjóni kveðjuna lét þess ennfremur getið að þó Finnjón hafi verið seintekinn hafi hann reynst traustur vinur og virkur þátttakandi í félagslífi skólans.
Finnjón Mósesson fæddist á Arnarnesi árið 1895 þar sem foreldrar hans áttu þurrabúð en margbýlt var á jörðinni eins og víða tíðkaðist í þá tíð. Fjölskyldan átti nokkrar skjátur til búdrýginda en lífsviðurværið byggðist einkum á sjómennsku föðurins auk ýmissa íhlaupastarfa sem hann sinnti í landi. Tekjur voru litlar en þó tókst foreldrunum að koma öllum sínum börnum til einhverra mennta. Þar hafði Núpskóli afgerandi áhrif.
Nemendur skólans voru rúmlega 30 talsins og setti skólahaldið mikinn svip á sveitina eins og nærri má geta. Ungmennafélagsandinn sveif yfir vötnum og kjörorðið var „Íslandi allt“. Samfélagsvitundin var sterk og þó einkaframtakið væri víða ráðandi, svo sem á Þingeyri, þótti ekki sjálfsagt að fara með ágóðann á brott. Dönsk verslun var á undanhaldi en henni hafði verið legið á hálsi fyrir að fara með gróðann úr landi enda ekki við því að búast að útlendir menn sýndu landsmönnum hollustu. Framtaksamir menn leyfðu sér að hugsa stórt fyrir eigið byggðarlag svo sem bræðurnir Kristinn og Sigtryggur Guðlaugssynir en þeir voru helstu hvatamenn í fé- lags-, mennta- og menningarlífi Mýrhreppinga við norðanverðan Dýrafjörð á fyrri hluta síðustu aldar. Þeir áttu drjúgan þátt í stofnun Núpsskóla árið 1906 en með honum fékk alþýðufólk í sveitinni í fyrsta sinn raunverulegt tækifæri til menntunar. Skammvinnur blómatími gekk í hönd.
Í skólanum var mikil áhersla lögð á „þjóðlegar dyggð- ir“ svo sem málvöndun, íslenska þj ó ð m e n n i n g u , líkamsrækt og þekkingu á landinu og ræktunarmöguleikum þess. Námið fór fram jafnt innan sem utan veggja skólans og fyrir kom að menn brygðu undir sig ferðafæti og færu í skemmtiferð til að efla félagsandann og njóta náttúrunnar. Og þegar gengið var til skólastofu voru nemendur komnir með afbragðs efnivið fyrir næstu stílæfingu þar sem innlifun og málvitund skyldu haldast í hendur. Ég gríp að endingu niður í stílabók Finnjóns þar sem hann segir frá gönguferð upp Mýrafell en það stendur skammt frá Núpi. Lýsingin er skemmtilega stíluð og fangar vel þann ungmennafélagsanda sem sveif yfir vötnum á þessum árum.
„Fellin eru tvö í Dýrafirði og heitir annað Sandafell, sem er fyrir sunnan eða vestan við fjörðinn, en Mýrafellið norðan til við fjörðinn. Þessi fell standa gagnvart hvort öðru. Mýrafellið er laust við aðalfjallgarðinn. Að sunnanverðu gengur það fram í sjó með litlu klettabelti, en fyrir ofan klettabeltið kemur hlíð er nær að öðru klettabelti svipuðu hinu neðra, og tekur þar fyrir ofan hlíð er nær að brún. Að norðanverðu við fellið heldur sér ein óslitin hlíð að brún. Töluvert láglendi er fyrir norðan fellið. Þegar maður er út á hafi, þá vatnar í kringum fellið og það sýnist eins og eyja í miðjum firðinum. Að lögun er það að sjá eins og bátur á hvolfi.
Það var einn góðan veðurdag að nemendur af Ungmennaskólanum á Núpi ásamt kennurunum tóku sér skemmtigöngu upp á fellið. Veður var hið besta og gangfæri gott. Margir vildu fara upp á fellið þar sem það var hæst og voru það einkum fræknustu fjallgöngumennirnir en hinir töldu það ókleift. Það var samt afráðið að allir legðu af stað á fellið þar sem það var hæst. Þegar kom upp í miðja fjallshlíðina, tók að verða nokkuð hált og voru sumir farnir að ganga á höndum og fótum, en ekki var gefist upp fyrr en allir voru komnir upp á fellið.
Þegar kemur upp á fellið er það víða svo mjótt að það má sitja klofvega á því og hvar sem gengið er eftir því þá sér maður niður fyrir sig til beggja handa. Á einum stað uppi á fellinu kom ferðafólkið saman, og voru þar haldnar ræður og sungið mikið. Þegar söngurinn stóð sem hæst kom millilandaskip inn fjörðinn. Skipið breytti stefnu sinni og kom nær fellinu og flautaði „Eldgamla Ísafold“ o.s.frv. Það hefur eflaust heyrt sönginn og séð fólkið upp á fellinu. Síðan lögðu allir af stað heimleiðis, glaðir í anda og hressir eftir fjallgönguna.“
Leifur Reynisson, sagnfræðingur.
Blaðið Vestfirðir fimmtudaginn 27. október 2016