01.04.2009 - 00:47 | bb.is
Frá leikritinu Dragedukken. Mynd: bb.is
Söngleikurinn Dragedukken verður frumsýndur í félagsheimilinu á Þingeyri á laugardag. Um er að ræða sérstakt verkefni sem tengist Þingeyri og lífinu þar í lok átjándu aldar og í upphafi þeirrar nítjándu. Við sögu kemur meðal annars Andreas Steenbach faktor á Þingeyri, sem var margt annað til lista lagt, svo sem verka saltfisk. Hann gerði sér lítið fyrir og samdi tónlist við norska söngleikinn Dragedukken sem frumsýndur hafi verið nokkrum árum áður. „Við erum búin að vera æfa baki brotnu. Mjög stór hópur hefur komið að þessu verkefni en við eru með þrettán leikara og átta manna hljómsveit. Þetta er mjög skemmtilegur hópur og allir eru búsettir á Þingeyri fyrir utan einn leikara sem við fengum að láni frá Ísafirði", segir Elfar Logi leikstjóri verksins. Tónlistarstjóri er Krista Sildoja en það er Íþróttafélagið Höfrungur sem stendur að sýningunni.
Andreas var verslunarstjóri á Þingeyri í um það bil 20 ár, 1798 eða 1799 til 1819, og rak þar síðan eigin verslun allt til dauðadags en hann andaðist árið 1824. Á sínum fyrstu verslunarstjóraárum var Andreas ókvæntur og bjó þá um skeið með ráðskonu sem hét Lisebet Hansdóttir. Á árunum rétt eftir 1800 gekk hann hins vegar að eiga stúlku sem hét Elene Kristine. Báðar munu þær hafa verið danskar eða norskar. Með konu sinni eignaðist Andreas níu börn sem öll fæddust á Þingeyri á árunum 1803 - 1816.
Frumsýningin verður kl. 20 laugardag en önnur sýning verður á sunnudag kl. 20. Ein sýning verður á Skíðavikunnu en hún fer fram föstudaginn langa kl. 20. „Miðasala er hafin og síðast þegar ég frétti voru 40 sæti laus af 130 svo það er um að gera að panta sem fyrst", segir Elfar Logi. Miðasölusíminn er 867 9438.