A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
05.08.2016 - 21:25 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Sögur spinnast um Fransmannsleiðið á Suðureyri við Tálknafjörð

Ráðgáta - Jón Þórðarson við nýja krossinn á Fransmannsleiðinu. Strompur sem tilheyrði gömlu hvalveiðistöðinni sést í baksýn.
Ráðgáta - Jón Þórðarson við nýja krossinn á Fransmannsleiðinu. Strompur sem tilheyrði gömlu hvalveiðistöðinni sést í baksýn.
« 1 af 2 »

Óþekktur sjómaður

• Jón Þórðarson endurnýjar krossinn

„Þetta heitir Fransmannsleiði. Við vitum ekkert annað. Ég veit að einhverjir hafa verið að leita að heimildum en engar óyggjandi upplýsingar fundið,“ segir Jón Þórðarson, skipstjóri og ferðaþjónn á Bíldudal, um hleðslur við sjávarkambinn rétt innan við Suðureyri í Tálknafirði. Mannvirkið hefur alla tíð verið nefnt Fransmannsleiði og af því hafa menn ráðið að franskur sjómaður hafi verið jarðsettur þar.

Jón segir að Fransmannsleiðið sé ólíkt mörgum öðrum slíkum leiðum á Vestfjörðum. Yfirleitt séu grafirnar á láglendi. Á Suðureyri komi hleðsla út úr landinu, rétt ofan við fjörukambinn, mannhæðarhá að framanverðu. Sjór falli alveg að því. Gönguleiðin lá þarna hjá og segir Jón að ávallt hafi göngumenn sett steinvölu í sylluna og þá hafi þeim átt að farnast vel.


„Sagt er að kross hafi verið á þessu leiði frá upphafi. Væntanlega hafa Suðureyringar haldið krossinum við, síðan Vegagerðin um tíma og ég hef gert það síðustu áratugina,“ segir Jón. Hann lét útbúa nýjan kross í sumar og í fyrsta skipti er fest á hann skilti með upplýsingum um að þar hvíli franskur sjómaður en nafn hans sé ekki þekkt.

 

Draummaður ömmu

Jón fæddist og ólst upp á Suðureyri og er einn af eigendum jarðarinnar. Hann þekkir ýmsar sögur um Fransmannsleiðið. „Þegar Vegagerðin var að mæla fyrir veginum út á Suðureyri var gert ráð fyrir honum í fjörunni. En þegar vegagerðarmenn komu að Fransmannsleiðinu hættu þeir við og færðu veginn upp í fjöruna.

Ein munnmælasagan segir að þetta hafi verið draummaður ömmu minnar og hafi sagt henni fyrir um dulda eða óorðna hluti í draumi. Þegar hún lést hafi hann fært sig til manns á öðrum bæ. Ég hitti þann mann um þetta fyrir tveimur árum og spurði eftir draummanninum. Hann sagði að þeim hafi sinnast og hann væri ekki lengur draummaður hans.“

Enn sjást rústir gamallar hvalveiðistöðvar á Suðureyri og er skorsteinn Katlahússins mest áberandi. Jón hefur gert við skorsteininn og telur að hann eigi að geta staðið í önnur 100 ár. Þótt vegurinn sé slæmur er nokkuð um að fólk leggi þangað leið sína en Jón tekur fram að skipulagðar ferðir séu óheimilar nema með leyfi landeiganda.

 

Morgunblaðið föstudagurinn 5. ágúst 2016.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31