Skynlausar skepnur?
Það er merkileg skepna sauðkindin og því merkilegri sem menn kynnast henni betur.
Þau Sigríður á Hrafnabjörgum og Sigurjón í Lokinhömrum töluðu við sínar kindur eins og við mann og annan og það hefur margur sauðamaðurinn og smalinn gert í gegnum tíðina. Og ásauðurinn sperrir eyrun og skilur fleira en margur hyggur.
Nú. Það var fyrir nokkrum árum að smalinn á Brekku í Dýrafirði fór yfir á Hrafnseyradal í Arnarfirði í haustleitir og hitti þar fyrir 12 geldar veturgamlar gimbrar í einum hóp. Þetta var um 12-14 km leið og yfir Hrafnseyrarheiði að fara. Hann ávarpaði þær á máli sem þær skildu og sagði þeim að koma nú heim til sín því það væri orðið áliðið og allra veðra von á fjöllum.
Og hvað skeði? Morguninn eftir stóð hópurinn við girðinguna á Brekku. Skynlausar skepnur?
Hallgrímur Sveinsson.