A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
31.03.2015 - 06:37 | Hallgrímur Sveinsson,Á förnum vegi fyrir vestan:

Skjólskógar á Vestfjörðum: Búið að gróðursetja 4,3 milljón plöntur á 15 árum

« 1 af 4 »

Maður er nefndur Sæmundur Þorvaldsson og er frá Læk í Dýrafirði. Hann hefur frá upphafi árið 2000 veitt forstöðu Skjólskógum á Vestfjörðum. Sæmundur er fiskiðnaðarmaður og kom víða við í þeirri atvinnugrein á árum áður, m. a. var hann frystihússtjóri hjá H. D. á Þingeyri og víðar kom hann við á því sviði. Síðar tók hann grunnháskólanám í skógfræðum.

Við hittum Sæmund á skrifstofu Skjólaskóga á Þingeyri.

Hvernig hefst skógurinn við, Sæmundur?

Dável. Trjávöxtur góður. Við erum búin að fá tvo erfiða vetur í röð. Nokkrar skemmdir hafa orðið á nýgróðursetningum á barrtrjám og svolítið um snjóbrot. Nokkuð var um skaða af völdum ísingar í fyrravetur en það höfum við ekki séð áður. Svo hafa verið nokkrir skaðar á stórum trjám af völdum  stormfellingar í vetur.

Hvernig hefur trjávöxtur verið þann tíma sem Skjólskógar hafa starfað?

Eins og best gerist og niður í það lakasta á landinu. Suðurhluti Vestfjarða sýnir vöxt eins og best gerist í Borgarfirði. Miðhlutinn er ágætur, en lakara fyrir norðan. Hægari vöxtur við utanvert Ísafjarðardjúp og á Ströndum.

Hvað er búið að gróðursetja margar plöntur á vegum Skjólskóga á Vestfjörðum?

4,3 milljónir plantna frá árinu 2000. Búið er að planta skógi á 56 jörðum í fjórðungnum þar af á 11 jörðum í Dýrafirði. Þar er búið að gróðursetja tæpa milljón plöntur. Eigandi Bakka og Granda í Brekkudal byrjar svo gróðursetningu í samvinnu við Skjólskóga í sumar.

Tegundir?

Birkið er í fyrsta sæti, þá greni, lerki, og fura og svo ýmis önnur tré. Búið er að planta í 1800 hektara lands á Vestfjörðum.

Hvað á að planta miklu í sumar?

200 þúsund plöntum. Það er það minnsta frá upphafi, en mest var plantað hjá okkur árið 2005 eða 350 þúsund plöntum.

Er svolítið gaman að þessu?

Alveg djöfull gaman, segir Sæmundur brosandi. Árangur er mun betri en menn þorðu að vona og það gefur byr í seglin og ánægju. Nú fer vestfirski skógurinn bráðum að skila krónum í kassann! Segir Skjólskógamaðurinn Sæmundur.  

 

Hallgrímur Sveinsson.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31