A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
25.09.2017 - 21:43 | Vestfirska forlagið,Verkalýðsfélag Vestfirðinga,Hallgrímur Sveinsson,Björn Ingi Bjarnason

Skjalasafn verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum afhent Héraðsskjalasafninu, Ísafirði

Alls eru deildir safnsins 34
Alls eru deildir safnsins 34
« 1 af 3 »

Skjalasafn verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum var formlega afhent Héraðsskjalsafninu Ísafirði við athöfn í Baldurshúsinu, Pólgötu 2 Ísafirði, föstudaginn 22. september 2017.

Skjalasafnið telur 524 skjalaöskjur sem skráðar eru í 34 deildir verkalýðsfélaga, stofnana, fyrirtækja og samtaka sem félögunum tengjast. Safnið geymir skjöl Alþýðusambands Vestfjarða frá stofnun þess 1927 og einstakra félaga sem störfuðu innan þess, allt til stofnunar Verkalýðsfélags Vestfirðinga á árunum 2002-2005.

Afhending safnsins er ein stærsta einstaka afhending sem Héraðsskjalsafninu hefur verið færð og einstök að því leyti að safnið er frágengið, flokkað og skráð þannig að það er tilbúið til notkunar fyrir fræðimenn og aðra áhugasama.

Við formlega afhendingu safnsins sagði Finnbogi Sveinbjörnsson formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga að í kjölfar þess að Verk Vest tók yfir hlutverk Alþýðusambands Vestfjarða árið 2016, hafi stjórn félagsins ákveðið að afhenda skjalasafn Alþýðusambands Vestfjarða og aðildarfélaga þess til varðveislu í Héraðsskjalasafninu og tryggja þar með örugga varðveislu og aðgang að safninu. Við flutning skrifstofu félagsins úr Baldurshúsinu Pólgötu 2 var ákveðið að félagið héldi áfram því starfi sem áður fór fram á vegum ASV og léti skrá skjalasafn sambandsins, aðildarfélaga þess og skrifstofu verkalýðsfélaganna til þess tíma sem 12 félög ASV sameinuðust í Verkalýðsfélag Vestfirðinga á árunum 2002-2005. Sigurður Pétursson sagnfræðingur vann að skráningu safnsins og með honum Sigrún María Árnadóttir. Finnbogi sagði það ánægjulegt að geta nú afhent safnið frágengið og klárt í hendur Héraðsskjalsafnsins.

Jóna Símonía Bjarnadóttir yfirmaður safnamála í Ísafjarðarbæ og Guðfinna M. Hreiðarsdóttir skjalavörður tóku við gjöfinni fyrir hönd Héraðsskjalasafnsins. Sögðu þær að safnið væri stærsta einstaka afhending til safnsins frá stofnun þess. Þá lýstu þær sérstakri ánægju með að frágangur safnsins og nákvæm skráning tryggði að aðgangur að safninu yrði mögulegur strax frá fyrsta degi.

Skjalasafn verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum varð til í tengslum við skráningu á sögu verkalýðshreyfingarinnar í fjórðungnum sem hófst á vegum Alþýðusambands Vestfjarða í árslok 2002. Þegar vinna við söguritun félaganna hófst var ljóst að mikið starf þurfti að inna af hendi við flokkun og skráningu ýmissa gagna sem félögin höfðu látið eftir sig. Söfnun heimilda um starfsemi félaganna vítt og breitt um Vestfirði fór fram samhliða því að félögin sameinuðust í eitt verkalýðsfélag sem teygir sig til allra Vestfjarða. Skjalasafninu bárust aðföng víða að, allt frá Hólmavík og Drangsnesi til Patreksfjarðar, Tálknafjarðar og Bíldudals. Gögnum verklýðsfélaga á Ísafirði, í Hnífsdal, Bolungarvík og Súðavík, Suðureyri, Flateyri og Þingeyri var safnað saman, þau flokkuð og skráð. Þá hafa gjörðabækur verkalýðsfélaga sem áður störfuðu í Sléttuhreppi, Árneshreppi og Flatey, sem finnast í Þjóðskjalsafninu, verið ljósrituð. Auk þessa hafa gögn frá stofnunum, fyrirtækjum og stjórnmálafélögum í tengslum við verkalýðshreyfinguna verið skráð. Má þar nefna skjalasafn Alþýðuhúss Ísfirðinga, Jólatrésnefndar stéttarfélaganna, 1. maí nefndar og Skrifstofu verkalýðsfélaganna. Innan einstakra skjalasafna má finna skjöl bæði stofnana og einstaklinga sem tengjast starfsemi félaganna, til dæmis skjöl Sjómannadagsins á Ísafirði í safni Sjómannafélags Ísfirðinga og safn Sigurðar E. Breiðfjörð hjá Brynju á Þingeyri.

Alls eru deildir safnsins 34.
Það eru Alþýðusamband Vestfjarða, verkalýðsfélög, stofnanir og fyrirtæki í eigu verkalýðsfélaganna og stjórnmálafélaga. Stærstu söfnin eru safn ASV, Verkalýðsfélagsins Baldurs Ísafirði og félaganna á Patreksfirði, Hólmavík, Þingeyri og Flateyri og Verslunarmannafélags Ísafjarðar. Það eru þau félög sem starfrækt hafa eigin skrifstofu um lengri eða styttri tíma. Önnur söfn eru þunnskipuð. Innan hvers skjalasafns eru skjölin flokkuð í gjörðabækur, bréfasafn, málasafn og önnur gögn.

Þannig verða söfnin aðgengileg áhugafólki og fræðimönnum til notkunar í framtíðinni.

Skjalasafn verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum geymir eftirtalin söfn:

Safnanúmer  - heiti félags/samtaka                                 stærð safnsins

1          Alþýðusamband Vestfjarða (ASV)                       76 öskjur

2          Skrifstofa verkalýðsfélaganna á Ísafirði               12 öskjur

3          Skutull                                                               4 öskjur

11        Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna á Ísafirði               1  askja

12        Alþýðuhús Ísfirðinga - Ísafjarðarbíó                     20 öskjur

13        Jólatrésnefnd stéttarfélaganna á Ísafirði               1  askja

14        1. maí nefnd verkalýðsfélaganna á Ísafirði            1 askja

15        Styrktarnefnd stéttarfélaganna  (með númer 14)

21        Verkalýðsfélagið Baldur, Ísafirði                          60 öskjur  (+ 3 bækur)

22        Sjómannafélag Ísfirðinga                                   20 öskjur

23        Vélstjórafélag Ísafjarðar                                      7  öskjur

24        Félag járniðnaðarmanna á Ísafirði                        8 öskjur

26        Verslunarmannafélag Ísafjarðar                          21 öskjur

27        Sveinafélag byggingamanna, Ísafirði                   13 öskjur

31        Verkalýðs- og sjóm.félag Hnífsdælinga                  3 öskjur

33        Verkalýðs- og sjóm.f. Álftfirðinga, Súðavík           25 öskjur

34        Verkalýðsfélag Sléttuhrepps                                 1 askja

36        Verkalýðsfélagið Brynja, Þingeyri                        33 öskjur

37        Verkalýðsfélagið Skjöldur, Flateyri                       37 öskjur

38        Verkalýðs- og sjómannafélagið Súgandi               12 öskjur

39        Verslunarmannafélag Bolungarvíkur                    10 öskjur

41        Verkalýðsfélag Patreksfjarðar                             56 öskjur

42        Verkalýðsfélagið Vörn, Bíldudal                          16 öskjur

43        Verkalýðs- og sjómannafélag Tálknafjarðar           7 öskjur

44        Verkalýðs- og sjómannafélagið Grettir, Reykhólum 1 askja

45        Verkalýðsfélag Flateyjar                                       1 askja

51        Verkalýðsfélag Hólmavíkur                               51 askja

52        Verkalýðs- og sjómannafélag Kaldrananeshrepps  11 öskjur

53        Verkalýðsfélag Árneshrepps                                1 askja

60        Kjördæmisráð Alþýðufl. á Vestfjörðum              1  askja

61        Alþýðuflokksfélag Ísafjarðar                                9 öskjur

62        Kvenfélag Alþýðuflokksins Ísafirði                      1 askja

63        Alþýðuflokksfélag Hnífsdælinga                          1 askja

71        Alþýðubandalagið á Vestfjörðum                         3 öskjur

            ------------------------------------------------------------------------------------

            Samtals:          34 deildir                                           524 öskjur

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31