24.11.2011 - 10:09 | bb.is
Skellur og Höfrungur keppa á Íslandsmóti í blaki
Þriðji flokkur kvenna hjá blakfélaginu Skell á Ísafirði leikur á fyrri hluta Íslandsmótsins í blaki sem haldið verður í Mosfellsbæ um helgina. Lið Skells spilar tvo leiki á laugardag, gegn HK frá Kópavogi og Dímon stúlkum frá Hvolsvelli. Þá spila stúlkurnar stíft á sunnudag en þá leika þær gegn Aftureldingu frá Mosfellsbæ, Höfrungi frá Þingeyri og liði Sindra frá Hornafirði.
Höfrungur frá Þingeyri sendir tvö lið á mótið og keppir bæði í stúlkna- og piltaflokki. Stúlkurnar mæta liði Sindra, Aftureldingar, Dímon stúlkna og HK á laugardag en eiga aðeins einn leik á sunnudag á móti Skell. Þá mæta piltarnir liði Aftureldingar, KA frá Akureyri og Þróttar frá Neskaupstað á laugardag.
Hægt verður að fylgjast með úrslitum leikjanna jafn óðum á vefsíðunni krakkablak.bli.is.