13.03.2015 - 19:24 | BIB,bb.is
Skaut tófu út um svefnherbergisgluggann
Rétt fyrir miðnætti á miðvikudagskvöld, 11. mars 2015, varð Elínbjörgu Snorradóttur húsfrú á Mýrum í Dýrafirði, litið út um svefnherbergisgluggann og sá til tófu í snjónum ofan við bæinn. Bergsveinn Gíslason bóndi á Mýrum brá skjótt við og greip byssu sína, sem nú orðið hvílir við rúmstokkinn og skaut tófuna út um svefnherbergisgluggann. Er þetta fjórða tófan sem skotin er á þennan hátt á Mýrum, þrjár féllu í fyrravetur. Á Mýrum er eitt stærsta æðarvarp landsins og til að vel takist til með æðarvarp og dúntekju þarf að bægja tófunni frá sem og öðrum vargi. Í Dýrafirði eru þrjú stór æðarvörp; á Mýrum, á Læk og á Hólum.
Í samtali við bb.is í fyrrasumar sagði Valdimar Gíslason á Mýrum að tófunni hafi fjölgað gríðarlega. „Ástæðan fyrir fjölguninni er að það eru ekki unnin greni lengur eins og var gert allt frá landnámsöld. Menn voru á tímakaupi við að vinna greni en eftir sameiningu sveitarfélaganna hafa þessi mál verið í ólestri,“ sagði hann. Hann skoraði jafnframt á bæjarstjórn að koma grenjavinnslu í lag og hans mat var að fyrst um sinn þyrfti að stunda vetrarveiði samhliða grenjavinnslu.
Í samtali við bb.is í fyrrasumar sagði Valdimar Gíslason á Mýrum að tófunni hafi fjölgað gríðarlega. „Ástæðan fyrir fjölguninni er að það eru ekki unnin greni lengur eins og var gert allt frá landnámsöld. Menn voru á tímakaupi við að vinna greni en eftir sameiningu sveitarfélaganna hafa þessi mál verið í ólestri,“ sagði hann. Hann skoraði jafnframt á bæjarstjórn að koma grenjavinnslu í lag og hans mat var að fyrst um sinn þyrfti að stunda vetrarveiði samhliða grenjavinnslu.