Sjónvarpspjall: - Íslendingar eru frábærir!
Ekki er á sjónvarpið logið þegar það tekur sig til. Þátturinn Íslendingar er aldeilis frábær yfirleitt undir öruggri handleiðslu Andrésar Indriðasonar. Í gær var það hinn merki stjórnmálamaður Gylfi Þ. Gíslason. Um daginn Herdís Þorvaldsdóttir leikkona. Gylfi var yfirburðamaður. Það sáu menn vel þegar hann var ráðherra og eftir það. Ennþá betur sást það þegar hann var farinn heim. Eins og oft er með afburðamenn.
„Hann var yfirlætislaus heimsmaður, þjóðrækinn höfðingi og alþýðlegur; öðlingur, vel borinn viti; góðgjarn og forvitinn um allt sem mátti vel fara; fús að færa til hins betra flest.“ Svo sagði Thor Vilhjálmsson um dr. Gylfa.
Íslendingaþættirnir byggja allir yfirleitt á gömlu sjónvarpsefni. Í gamla daga voru til dæmis í gangi þættir sem hétu Maður er nefndur og fleiri og fleiri slíkir. Er eitthvað álíka í gangi í dag í íslensku sjónvarpi sem kemst með tærnar þar sem gömlu sjónvarpsmennirnir höfðu hælana? Var einhver að tala um Hemma Gunn, Ómar Ragnarsson og þá alla?
Hallgrímur Sveinsson.