Sjónvarpspistill: - Hvers vegna ekki meira af slíku?
Það er merkilegt þetta blessaða Sjónvarp okkar.
Stundum getur það komið manni algjörlega í opna skjöldu. Sjáið til dæmis þáttinn um hann Ása í Bæ í gærkvöld, Ástgeir Kristinn Ólafsson, í þáttaröðinni Íslendingar. Dagskrárefni úr safni RÚV, umsjón og dagskrárgerð: Andrés Indriðason sem hefur verið sjónvarpinu dýrmætur starfsmaður í gegnum tíðina. Einfaldlega ljómandi þáttur fyrir allt venjulegt fólk! Þetta hefur verið stórkostlegur maður hann Ási í Bæ. Það merkilega er að það hafa verið margir slíkir karakterar í öllum sjávarbæjum á Íslandi. Og í sveitum landsins.
Auðvitað á Sjónvarpið að gera meira af slíku. Draga fram þá persónuleika sem eru hvarvetna í kringum okkur. Nógur er efniviðurinn.
Og meðal annarra orða: Hvenær kemur að því að Sjónvarpið endursýni alla sjónvarpsþættina hans Hemma Gunn? Það er varla búinn til sá skemmtiþáttur í dag, að ekki sé gengið í sjóðinn hans Hemma og teknar stiklur frá honum. Af hverju ekki að birta þættina óstytta?