A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
09.06.2016 - 08:30 | Björn Ingi Bjarnason,bb.is,Vestfirska forlagið

Sjómannadagurinn á Flateyri 2016- Sýndu mynd um ömmu sína og afa á Flateyri

« 1 af 11 »

Á sjómannadagshátíðinni  á Flateyri var kynning á myndinni  -Ýtt úr vör-  sem er verk í vinnslu hjá systkinunum Júlíu og Víði Björnsbörnum.  Þau eiga rætur í föðurætt að Felli í Dýrafirði. Sýnir myndin frá störfum móðurafa og ömmu þeirra, þeim Haraldi Jónssyni, sem lést árið 1988 og Gróu Björnsdóttur, sem hefur verið  búsett á Hlíf á Ísafirði frá 2013. Þau hjónin voru í áratugi sjálfstætt starfandi við útgerð og vinnslu á Flateyri og Görðum í Önundarfirði.

 

Myndefnið er sótt í smiðju Ernu Sigrúnar Egilsdóttur og Katrínar Kingu Jósefsdóttur sem voru farandverkakonur á Flateyri á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Þær heilluðust af hjónunum Hadda og Gróu, störfum þeirra og lífi í þessu litla sjávarplássi. Báðar eru þær áhugakonur um kvikmyndagerð og ljósmyndun og fengu þær leyfi hjá hjónunum til að taka upp daglegt líf þeirra við fiskvinnslustörfin. Fyrirtækið Screenshot í Berlín sá um að skanna 8mm filmurnar og yfirfæra þær á stafrænt form og yfirumsjón með því verki hafði Þórir Ingvarsson, maður Júlíu, sem er kvikmyndaforvörður að mennt.

Júlía setti sig í samband við þær Ernu og Katrínu árið 2014, en myndefnið sem var tekið upp á árunum 1982-3, hafði þá legið nánast óhreyft fram að því. Í framhaldinu hófst vinna við að útbúa myndefnið til miðlunar og fræðslu. Júlía og Víðir hafa unnið myndefnið áfram, endurklippt, og tekið upp hljóð og nýjar myndir. Samtöl við Gróu hafa verið hljóðrituð þar sem hún lýsir lífi og starfi sínu og Hadda yfir kvikmyndaupptökunum, sem eru hljóðlausar.

Í umfjöllun um verkefnið segir að eftir mikla yfirlegu margra aðila sé ljóst að þarna séu að finna einstakar myndir úr menningar- og atvinnusögu vestfirsks sjávarþorps. Ýtt úr vör hlaut styrk frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og vinna þau systkinin nú hörðum höndum að því að fullvinna myndina sem þau vonast til að verði tilbúin á haustmánuðum.

Í myndinni koma vel fram verkunaraðferðir einyrkja og hið meitlaða handbragð sem þarf til þess að ná hámarks árangri við veiðar og vinnslu þá sem um ræðir svo sem; handfæraveiðar, harðfiskverkun, grásleppu- og rauðmagaveiðar og vinnslu á öllum stigum.


 Sýndur  var 20 mínúta kafli úr myndinni  í Samkomuhúsinu á Flateyri laugardaginn 4. júní og var þetta hluti af glæsilegri dagskrá sjómannadagshelgarinnar á Flateyri sem Björgunarsveitin Sæbjörg stóð fyrir. Sýningargestir lýstu mikilli ánægju með myndina  og var Gróu Björnsdóttur fagnað með lófaklappi í lok sýningar en hún verður 90 ára í desember n.k.

Vestfirska forlagið var á sýningunni og færði til myndar.

Á þessari slóð eru myndir frá kvikmyndasýningunni:
http://menningarstadur.123.is/photoalbums/278932/


« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31